Þorsteinn Sæmundsson: Merkismaður látinn
Sigurður Kr. Árnason húsasmíðameistari, listmálari og
áhugamaður um jarðfræði, skógrækt, stjörnufræði og fleira, er látinn, 92 ára að
aldri. Hans er getið hér vegna þess að Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness á
tilurð sína honum að þakka. Vorið 1974 kom Sigurður á minn fund og sagðist vilja
kaupa stjörnusjónauka sem komið yrði fyrir undir hvolfþaki á Valhúsaskóla með
aðgangi fyrir áhugamenn. Sigurður hafði séð um byggingu skólans eins og fleiri
þekktra mannvirkja. Sjónaukann pantaði Sigurður síðar á árinu. Þetta var 14
þumlunga spegilsjónauki, sá stærsti á landinu á þeim tíma.
|