Björt halastjarna á himni
Þessa dagana (í ársbyrjun 2007) er björt halastjarna
sýnileg á himni, bæði kvölds og morgna. Hún er í suðaustri frá Reykjavík
í birtingu en í suðvestri við myrkur. Halastjarna þessi er kennd við
ástralska stjörnufræðinginn Róbert McNaught sem fann hana hinn 7. ágúst
síðastliðinn, en þá var hún langt frá sólu og afar dauf. McNaught hefur
verið iðinn við að leita uppi halastjörnur og mun 31 halastjarna bera
nafn hans, en sum nafnanna vísa til fleiri en eins finnanda. Stjörnufræðingar
auðkenna þessa tilteknu halastjörnu með skammstöfuninni C/2006 P1. Hún
verður aðeins sýnileg hérlendis í fáa daga því að hún fer hratt suður
eftir himninum um leið og hún nálgast sól. Eftir 12. janúar kemur hún
ekki upp fyrr en eftir að bjart er orðið og sest fyrir myrkur.
Athugunarskilyrði verða þá hagstæðari á suðurhveli jarðar. Nánari
upplýsingar er að finna í eftirfarandi töflu sem reiknuð er fyrir
Reykjavík. Taflan sýnir hæð
halastjörnunnar í suðaustri í birtingu og hæð hennar í suðvestri við
myrkur. Einnig er sýnt hvenær hún kemur upp og sest í
Reykjavík. Rétt er að benda á það að reikistjarnan Venus er líka lágt á
lofti á kvöldhimninum um þessar mundir, nokkru lengra frá sól (til
vinstri við halastjörnuna). Í aftasta dálki er sýnt hvenær Venus sest.
Viðbót 14. jan. Samkvæmt
síðustu fréttum var halastjarnan orðin mun bjartari en Venus að kvöldi
13. janúar. Hún sést því á björtum himni ef skyggt er fyrir sól. Hún
verður hæst á lofti í Reykjavík um kl. 14 hinn 14. janúar, skammt austan
við sól (um 6° frá sól, vinstra megin). Hún færist hratt suður á bóginn
og sést ekki frá Íslandi eftir 15. janúar. Þar sem hún er á leið frá sól
má búast við að birta hennar minnki fljótlega aftur.
Dags. |
Birting |
Hæð |
Myrkur |
Hæð |
Rís |
Sest |
Venus sest |
8. jan. |
09:58 |
6,7° |
17:11 |
7,0° |
08:44 |
18:29 |
17:40 |
9. jan. |
09:57 |
5,6° |
17:13 |
6,2° |
08:54 |
18:23 |
17:46 |
10. jan. |
09:55 |
3,7° |
17:15 |
4,6° |
09:12 |
18:10 |
17:51 |
11. jan. |
09:54 |
1,2° |
17:18 |
2,5° |
09:39 |
17:50 |
17:57 |
12. jan. |
09:53 |
-2,0° |
17:20 |
0,4° |
10:09 |
17:26 |
18:02 |
Halastjarnan fer langt inn fyrir braut innstu
reikistjörnunnar, Merkúríusar, og kemst næst sól hinn 12. janúar. Verður
hún þá 25 milljón km frá sólinni, en það er aðeins 1/6 af fjarlægð
jarðar frá sól. Hraði halastjörnunnar vex eftir því sem hún nálgast sól
Hinn 9. janúar var hraðinn orðinn 90 km/s, þrefaldur hraði jarðar á
göngu hennar um sólina. Mestur verður hraðinn um 100 km/s.
Tvær fyrstu myndirnar hér að neðan voru teknar út um
glugga á Raunvísindastofnun Háskólans (Tæknigarði) að morgni 9. jan.
Þriðja myndin er tekin í Hafnarfirði sama morgun. |