Í tímariti Breska stjörnufræðifélagsins (British Astronomical
Association) birtist nýlega fróðleg grein um þessa konu. Þar kemur
fram, að hún var fyrst allra til að bera heitið vísindamaður, og að
enska heitið "scientist" var beinlínis fundið upp til að lýsa starfi
hennar. Þegar hún lést, árið 1872, komst Lundúnablaðið Morning Post
svo að orði: "Þótt erfitt gæti orðið, nú um miðja 19. öld, að
útnefna konung vísindanna, er enginn vafi á því hver verðskuldi
heitið drottning vísindanna." Þegar Royal Bank of Scotland gaf út
peningaseðil með mynd af Mary Somerville árið 2017 var það í fyrsta
sinn sem slíkur heiður veittist persónu utan konungsfjölskyldunnnar.
Ein af deildum Oxfordháskóla ber hennar nafn (Somerville College),
svo og smástirni nokkurt og gígur á tunglinu.
Mynd af Mary eftir málarann John
Jackson
Mary var skosk, dóttir sjóliðsforingja að nafni William Fairfax,
og hét því Mary Fairfax fram að giftingu. Á þessum tíma þótti
fráleitt að stúlkur sæktu í æðra nám; þær ættu að sinna
heimilisstörfum. Mary tókst samt að afla sér þekkingar í stærðfræði,
latínu og grísku, m.a. með stuðningi eins frænda síns. Fyrri maður
hennar, Samuel Greig var mjög íhaldssamur og hélt aftur af henni.
Þegar hann lést, árið 1807, fékk hún frjálsari hendur, en hafði þó
ungt barn að annast.
Mary giftist aftur 1812. Seinni maður hennar, William Somerville,
var frjálslyndur og aðstoðaði hana á allan hátt við að afla sér
frekari menntunar. Árið 1811 fékk hún verðlaun fyrir að leysa
stærðfræðiþraut og var í framhaldi af því hvött til að þýða á ensku
ritverk um himingeiminn eftir franska stjörnufræðinginn Pierre-Simon
Laplace. Það gerði hún og bætti við ítarlegum skýringum á
eðlisfræðilegum fyrirbærum og stærðfræðilegum undirstöðum
sólkerfisins. Bókin (Mechanism of the Heavens) var notuð sem
kennslubók fyrir stærðfræðinga í háskólanum í Cambridge frá því að
hún kom út árið 1831, fram yfir 1870.
Það var þó seinni bók Mary, "On the Connexion of the Physical
Sciences", sem gerði hana fræga. Sú bók, sem kom út árið 1834,
fjallaði um hinar ýmsu greinar eðlisfræði og varð til þess að skapa
eðlisfræðinni sess sem vísindagrein. Árið 1835 var Mary Somerville
kjörin heiðursmeðlimur Konunglega breska stjörnufræðifélagsins
(Royal Astronomical Society).
Að lokum má geta þess að eyja nokkur á heimskautasvæðum Kanada
ber nafnið Somerville eyja, til heiðurs Mary Somerville. Það er þó
ekki fyrir framlag hennar til vísindanna heldur fyrir að búa til
glóaldinmauk (marmelaði) sem hún gaf landkönnuðinum William Parry í
nesti fyrir eina af heimskautaferðunum hans!
Þ.S. 15.4. 2022. |