Mars nærri jörðu

Hinn 27. ágúst síðastliðinn var reikistjarnan Mars óvenju nærri jörðu. Fjarlægðin til Mars er mjög breytileg, allt frá tæplega 56 milljón km til rösklega 400 milljón km. Fer það eftir því hvar reikistjörnurnar tvær, Mars og jörðin eru staddar á brautum sínum um sólina. Braut Mars liggur lengra frá sól en braut jarðar og hann er tæp tvö ár að fara eina umferð um sólina. Á meðan fer jörðin tæplega tvær umferðir um sól. Af því leiðir að rúmlega þessi tími (um það bil tvö ár og sjö vikur) líður frá því að Mars er næst jörðu á braut sinni þar til hann er aftur næst jörðu. Hve nálægt hann kemst er undir því komið hvar reikistjörnurnar mætast, því að brautirnar eru ekki hringar heldur sporbaugar og fjarlægðin til sólar því breytileg frá einum stað til annars. Á þetta sérstaklega við um braut Mars, en einnig um braut jarðar þótt í minna mæli sé. Báðar brautirnar taka auk þess hægfara breytingum á öldum og árþúsundum.

Í bók sem belgíski stærðfræðingurinn Jean Meeus lét frá sér fara s.l. ár, birti hann m.a. athuganir sínar á brautargangi Mars milljón ár fram og aftur í tímann. Benti hann á að Mars yrði óvenjulega nærri jörðu á þessu ári, svo að fara yrði tugþúsundir ára aftur í tímann til að jafna þetta met. Vegna breytinga á brautum Mars og jarðar þyrfti hins vegar ekki að leita eins langt fram í tímann, og yrði metið slegið nokkrum sinnum á næstu öldum. 

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga, að þótt Mars hafi verið sérlega nærgöngull að þessu sinni, hefur hann nokkrum sinnum komið ámóta nærri jörðu síðan sjónaukar voru fundnir upp. Má þar sérstaklega nefna árið 1924, þegar Mars var í aðeins 55,78 milljón km fjarlægð. Minnsta fjarlægð hans nú verður 55,76 milljón km, svo að þarna munar ekki miklu. 

Þegar Mars er eins nærri og nú, gefst áhugamönnum gott tækifæri til að skoða hann í  stjörnusjónaukum. Því miður var hann lágt á lofti frá Íslandi séð meðan hann var næst jörðu. Í Almanaki Háskólans eru nánari upplýsingar um það hvar á himni  Mars sést  í hverjum mánuði ársins.

 

Myndin hér að ofan var tekin með Hubble-geimsjónaukanum daginn sem Mars var næst jörðu.

Þessi mynd af tunglinu og Mars var tekin á Þingvöllum að kvöldi 6. október 2003. Myndina tók Snævarr Guðmundsson.

Þ.S. 23.8. 2003. Síðast breytt 3.1. 2004  

 

Almanak Háskólans