Ljósagangur á himni í október 2011

Dagana 27. og 28 október s.l. birtust í fjölmiðlum fréttir af ljósum sem fólk hafði séð á himni víða á landinu (http://www.visir.is/furduljos-saust-a-lofti-a-nokkrum-stodum/article/2011111029141
og http://epaper.visir.is/media/201110280000/pdf_online/1_2.pdf). Hugsanlegar skýringar fylgdu Meðal þess sem þar var nefnt voru loftsteinn,  endurvarp sólarljóss frá gervihnetti, norðurljós og vasaljós eða "höfuðljós". Nokkur tími leið þar til unnt var að safna lýsingum sjónarvotta. Af lýsingum þeirra má ráða að markverðir atburðir hafi verið tveir, og að í bæði skiptin hafi verið um loftstein að ræða.

Fyrri atburðurinn varð 25. október kl. 21:43. Þá sást frá Öxarfirði, Möðrudal og Reyðarfirði geysibjartur bláleitur hnöttur fara nokkuð lárétt á suðurhimni í átt til suðausturs. Birtan af hnettinum var svo mikil að land lýstist upp í tvær sekúndur eða svo. Hnötturinn virtist springa eða öllu heldur fuðra upp í lokin.

Næsta kvöld, hinn 26. október sást annað ljós fara yfir Suðvesturland frá austri til vesturs. Ljósið var afar bjart, sambærilegt við tunglið eða bjartara, þótt ekki slægi birtu á jörð. Það var hvítt að lit, en sumir sáu grænan eða rauðan hala. Ljósið sást í allt að 5 sekúndur og splundraðist í lokin. Þetta var um klukkan 18:40, en nokkur óvissa er í tímasetningunni. Ljósið sást frá Reykjavík,  Borgarfirði, Hrútafirði, Dalvík, Akureyri og Mývatnssveit.

Þótt báðar lýsingarnar komi heim við loftsteina, er ekki hægt að útiloka að brot úr gervitungli hafi komið inn í gufuhvolfið á þessum tímum, en engar fréttir hafa borist af slíku. Endurkast frá Iridíum gervihnetti (sjá http://www.almanak.hi.is/iridium.html) kemur ekki til greina, bæði vegna hreyfingar fyrirbæranna, tímasetningar þeirra og þess stóra svæðis sem blossarnir sáust frá. 

Atburðunum hefur nú verið bætt í skrá yfir vígahnetti sem sést hafa frá Íslandi (http://www.almanak.hi.is/vigahnet.html).

Hér skal ekki tekin afstaða til þeirra lýsinga sem skýrðar voru með norðurljósum og vasaljósum þar sem ekki hefur náðst til sjónarvotta.

Þ.S. 15.11. 2011. Viðbót 17.11. 2011

Almanak Háskólans