Lenging dagsins eftir vetrarsólhvörf |
Í ár (2020) eru vetrarsólhvörf kl. 10:02 að íslenskum tíma. Á þeirri stundu er sólin lengst frá norðurpól himins, sem er beint yfir norðurpól jarðar. Í Reykjavík kemur sólin upp þennan dag kl. 11:22 og sest kl. 15:30. Nákvæmlega reiknað er tíminn frá sólarupprás til sólseturs 4 stundir 8 mínútur og 41 sekúnda. Næsta dag (22. desember) hefur þessi tími lengst um 12 sekúndur, þriðja daginn lengist hann um 29 sekúndur, og fjórða daginn um 47 sekúndur. Þessar tölur eru dálítið breytilegar frá ári til árs, eftir því hvenær dagsins sólhvörfin verða. Fyrstu dagana eftir sólhvörf kemur lenging dagsins eingöngu fram síðdegis. Tími sólarupprásar breytist lítið sem ekkert en sólsetrinu seinkar. Þetta stafar af því að hádegistíminn, þ.e. sá tími þegar sól er hæst á lofti, er breytilegur, og á þessum árstíma er hádeginu að seinka eftir klukkunni að dæma. Veldur það seinkun bæði sólarupprásar og sólarlags. Dagurinn lengist sífellt hraðar, og undir áramót eru árhrifin einnig farin að sjást á tíma sólarupprásar. Meðallenging dagsins frá vetrarsólstöðum fram að sumarsólstöðum er 5,6 mínútur í Reykjavík en 6,8 mínútur á Akureyri. Sjá nánar hér:
|