Um stillingu klukkunnar

eftir Þorstein Sæmundsson

    Hinn 9. mars birtist grein í Morgunblaðinu eftir Björgu Þorleifsdóttur lífeðlisfræðing og áhugamann um rétta klukku á Íslandi. Greinin ber yfirskriftina "Nokkur atriði um svefn og mikilvægi birtu himinsins" og fjallar um svefnvenjur Íslendinga. Björg kemst að þeirri niðurstöðu að svefntími landsmanna myndi lengjast um 50-80 mínútur, mismunandi eftir landshlutum, ef klukkunni væri seinkað um eina klukkustund. Þessi niðurstaða virðist illa rökstudd og ekki sennileg. Sofa menn hálftíma lengur á Austurlandi en Vesturlandi af því að klukkan eystra er nær "réttri klukku";? Er eitthvað sem bendir til þess að svefntími Íslendinga hafi styst eftir 1968 þegar farið var að flýta klukkunni á veturna eins og gert hafði verið á sumrin? Styttist svefntíminn á vorin og lengist aftur á haustin í þeim löndum þar sem klukkunni er flýtt og seinkað á hverju ári? Eftir því sem Björg segir ætti áhrifanna að gæta á sumrin, jafnvel þar sem bjart er allan sólarhringinn.

    Björg mælir með því að klukkunni verði seinkað um eina klukkustund allt árið. Þetta var annar af tveimur valkostum sem menn stóðu frammi fyrir árið 1968 þegar fólk var orðið þreytt á "hringlinu með klukkuna". Þá var ákveðið, að vandlega athuguðu máli, að festa "sumartímann"; (þ.e. fljóta klukku) allt árið. Sem stjörnufræðingur hlýt ég að vera sammála Björgu um að hinn kosturinn hefði verið eðlilegri miðað við gang sólar. En stilling klukkunnar er málamiðlun þar sem taka verður tillit til margra sjónarmiða. Í grein minni í Mbl. 25. febrúar benti ég á vefsíðu Almanaks Háskólans þar sem lesa mætti þær röksemdir sem að baki lágu þegar ákvörðun var tekin um núgildandi tímareikning. Björg segir stuttlega frá þessum rökum, en afgreiðir þau með þessum orðum: "Flest þessara raka hafa með tímanum að mestu gengið sér til húðar."

    En er það svo?  Hvað er það sem orðið er úrelt?  Hið eina sem Björg nefnir er þetta: "Með nýrri tækni eru klukkur samstilltar, í einni andrá uppfærast tímatöflur og tölvusamskipti eru nú möguleg allan sólarhringinn." Þetta eru einungis þrjú atriði, og aðeins það síðasta skiptir máli þegar meta skal tillögu Bjargar, því að hún gerir ekki ráð fyrir neinu hringli með klukkuna. Lítum samt nánar á hvert þessara þriggja atriða.

    Sjálfvirk klukkustilling er vissulega möguleg í mörgum tölvum og tækjum. En því fer fjarri að sjálfvirkni leysi allan vanda og fyrirhöfn við að breyta tímanum vor og haust.  Óhætt er að fullyrða að nú séu á Íslandi mun fleiri klukkur, öryggiskerfi og mælikerfi sem þyrfti að handstilla heldur en voru hér á því herrans ári 1968. Um önnur óþægindi af tímabreytingum geta menn auðveldlega fræðst með því að spyrja Íslendinga sem búið hafa í löndum þar sem reglur um sérstakan sumartíma eru í gildi. Einnig má benda á eftirfarandi grein í Wikipediu:

    http://en.wikipedia.org/wiki/Daylight_saving_time

    Það sem Björg segir um skjóta uppfærslu á tímatöflum bendir til misskilnings af hennar hálfu. Í greinargerð með frumvarpinu 1968 var talað um að tímatöflur s.s. flóðtöflur hefðu oftsinnis verið rangtúlkaðar þegar klukkunni var breytt tvisvar á ári, en hvergi sagt að erfitt væri að umreikna töflurnar.

    Með þeim ummælum að tölvusamskipti séu nú möguleg allan sólarhringinn á Björg augsýnilega við það að á tölvuöld skipti tímamunurinn milli Íslands og annarra landa minna máli en áður. Þessu get ég verið sammála, enda var það ein af röksemdum mínum gegn tillögu um nýjan sumartíma sem fram kom á Alþingi árið 1994.  Ekki létu allir sannfærast því að í frumvarpi sem borið var fram á Alþingi árið 2000 var aftur lagt til að klukkunni yrði flýtt um eina stund yfir sumarið, með þeim rökum m.a. að breytingin myndi færa Ísland nær öðrum Evrópulöndum í tíma. Af þessu er ljóst að sumir myndu telja það til óhagræðis að seinka klukkunni og auka þannig tímamuninn milli Íslands og annarra Evrópulanda um eina klukkustund.  Í þessu sambandi skal bent á umsögn sem undirritaður tók saman að beiðni Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í apríl 1994. Þá umsögn má finna á veffanginu

    http://www.almanak.hi.is/althing1.html

    Við lagasetninguna 1968 var markmiðið að fara þá leið sem flestir landsmenn gætu sætt sig við. Ef taka ætti ákvörðun á ný og allar hliðar málsins væru skoðaðar er ég þess fullviss að niðurstaðan yrði óbreytt.

(Mbl. 20. mars 2010)