Um tímareikning á Íslandi

      Árið 1907 voru sett lög sem kváðu á um samræmdan tímareikning á öllu Íslandi. Áður höfðu klukkur á hverjum stað verið stilltar eftir meðalsóltíma staðarins. Klukka á Akureyri var því 15 mínútum á undan klukku í Reykjavík, og klukka á Neskaupstað 33 mínútum á undan Reykjavíkurklukku (sbr. töflu á bls. 59 í almanakinu). Í almanakinu var miðað við meðalsóltíma í Reykjavík og var tími almanaksins því um 1 klst. og 28 mínútum á eftir miðtíma (meðalsóltíma) Greenwich.

      Með lögum nr. 35 hinn 16. nóvember 1907 var ákveðið að hvarvetna á Íslandi skyldi fylgt tíma sem væri einni stund á eftir miðtíma Greenwich. Staðaltími þessi, sem nefndur var íslenskur meðaltími eða miðtími, var tekinn upp í almanakinu 1908.

      Með lögum nr. 8 hinn 16. febrúar 1917 var Ráðuneyti Íslands heimilað að ákveða með reglugerð að klukkan skyldi færð fram um allt að 1 1/2 klukkustund frá fyrrgreindum staðaltíma. Þessarar heimildar var neytt nokkrum sinnum og þá ávallt á þann veg að flýta klukkunni um eina klukkustund. Sýndi klukkan þá miðtíma Greenwich óbreyttan. Eftirfarandi skrá sýnir hvenær "sumartími" þessi var í gildi. Mörkin eru tilgreind í miðtíma Greenwich.
 

Sumartími í gildi 

Ár              Frá                   Til    
1917       20. febr. kl. 00      21. okt. kl. 01
1918       20. febr. kl. 00      16. nóv. kl. 01
1919       20. febr. kl. 00      16. nóv. kl. 01
1921       20. mars  kl. 00      23. júní kl. 01
1939       30. apríl kl. 00      29. okt. kl. 02
1940       25. febr. kl. 03       3. nóv. kl. 02
1941        2. mars  kl. 02       2. nóv. kl. 02
1942        8. mars  kl. 02      25. okt. kl. 02
1943        7. mars  kl. 02      24. okt. kl. 02
1944        5. mars  kl. 02      22. okt. kl. 02
1945        4. mars  kl. 02      28. okt. kl. 02
1946        3. mars  kl. 02      27. okt. kl. 02
1947        6. apríl kl. 02      26. okt. kl. 02
1948        4. apríl kl. 02      24. okt. kl. 02
1949        3. apríl kl. 02      30. okt. kl. 02
1950        2. apríl kl. 02      22. okt. kl. 02
1951        1. apríl kl. 02      28. okt. kl. 02
1952        6. apríl kl. 02      26. okt. kl. 02
1953        5. apríl kl. 02      25. okt. kl. 02
1954        4. apríl kl. 02      24. okt. kl. 02
1955        3. apríl kl. 02      23. okt. kl. 02
1956        1. apríl kl. 02      28. okt. kl. 02
1957        7. apríl kl. 02      27. okt. kl. 02
1958        6. apríl kl. 02      26. okt. kl. 02
1959        5. apríl kl. 02      25. okt. kl. 02
1960        3. apríl kl. 02      23. okt. kl. 02
1961        2. apríl kl. 02      22. okt. kl. 02
1962        1. apríl kl. 02      28. okt. kl. 02
1963        7. apríl kl. 02      27. okt. kl. 02
1964        5. apríl kl. 02      25. okt. kl. 02
1965        4. apríl kl. 02      24. okt. kl. 02
1966        3. apríl kl. 02      23. okt. kl. 02
1967        2. apríl kl. 02      29. okt. kl. 02


      Frá 1943 til 1946 var reglan sú að flýta klukkunni aðfaranótt fyrsta sunnudags í marsmánuði og seinka henni aftur fyrsta sunnudag í vetri. Frá 1947 til 1967 gilti hins vegar sú regla að klukkunni var flýtt aðfaranótt fyrsta sunnudags í apríl og seinkað aftur aðfaranótt fyrsta sunnudags í vetri. Vegna alþingiskosninga haustið 1949 var þó gerð undantekning frá reglunni og seinkun klukkunnar frestað um eina viku.

      Árið 1968 var "sumartíminn" loks gerður að staðaltíma á Íslandi með lögum nr. 6 frá 5. apríl það ár. Breytingin kom til framkvæmda 7. apríl kl 02 að miðtíma Greenwich og var klukkan þá færð fram um eina klukkustund. Hafa klukkur á Íslandi síðan verið stilltar eftir miðtíma Greenwich árið um kring.     

      Sjá enn fremur greinina "Um sumartíma".

(Úr Almanaki Háskólans 1988, með viðbótum)