Júpíter og Úranus saman á himni  

    Í Almanaki Háskólans, á bls. 39 og 67, er þess getið að Júpíter og Úranus séu í gagnstöðu við sól sama dag, 21. september 2010, og bilið á milli þeirra verði innan við eina gráðu (tæp tvö þvermál tunglsins, sem er skammt frá). Júpíter er bjartasta stjarnan á næturhimninum og því auðþekktur. Afstaða reikistjarnanna breytist hægt, og næstu daga verður því kjörið tækifæri fyrir áhugamenn að líta Úranus augum.  Hann er örlítið bláleitur, norðan (ofan) við Júpíter. Birtustig Úranusar er 5,7 svo að hann er á mörkum þess að sjást með berum augum. Í handsjónaukum sést hann greiðlega, og í stjörnusjónaukum með 100 sinnum stækkun eða meira er hægt að greina hann frá fastastjörnum vegna þess að hann hefur sýnilega stærð, er tæplega 4 bogasekúndur í þvermál. En jafnvel í stærstu sjónaukum er lítið hægt að sjá á yfirborðinu (lofthjúpnum). 
   Öðru máli gegnir um Júpíter. Hann er nú nær jörðu en hann hefur verið í 47 ár og liggur því vel við athugun. Rauði bletturinn er óvenju áberandi, ekki síst vegna þess að beltið sem hann er í (syðra miðbaugsbeltið) er næstum því horfið svo að umhverfi blettsins er ljósara en ella. Þetta hefur gerst áður, en þykir engu að síður sæta nokkrum tíðindum.

Þ.S. 22.9. 2010  

Almanak Háskólans