Almanak Háskólans

Iridíumblossarnir

      Hinn 21. september 1997 sáu flugmenn á leið frá Ameríku til Íslands torkennilegt ljós á himni nálægt stjörnunni Prókýon. Ljósið líktist stjörnu, en var miklu bjartari en nokkur af stjörnum himinsins, þar með talin Venus. Ljósið sást í nokkrar sekúndur, hvarf síðan, en birtist svo aftur í nokkrar sekúndur og virtist þá hafa færst lítið eitt til vesturs.

      Þetta munu hafa verið fyrstu kynni Íslendinga af nýju fyrirbæri á himinhvolfinu. Þarna var á ferðinni gervitungl af tegundinni Iridíum, sem rekið er af samnefndu fyrirtæki, en aðaleigandi þess er bandaríska stórfyrirtækið Motorola. Gervitungl þessi eru ætluð til símasambands og  geta flutt boð til og frá farsímum án milligöngu jarðstöðva hvar sem er í heiminum. Tunglin eru 66 talsins, ganga um jörðu í 790 km hæð og fara nálægt heimskautunum. Upphaflega áttu tunglin að vera 77, og af því var nafnið dregið, því að Iridíum eða Iridín er frumefni númer 77! Kerfið var tekið í notkun síðla árs 1998. Um skeið var framtíð þess í mikilli óvissu því að notendur urðu færri en búist var við og í ágúst 1999 var Iridíumfyrirtækið lýst gjaldþrota. Í nóvember 2000 náðust loks samningar um sölu á kerfinu til nýs eiganda svo að reksturinn hefur verið tryggður í bili. Kerfið á nú í samkeppni við nýrra símtunglakerfi, Globalstar, sem nýtir 48 gervitungl, en þau tungl valda ekki hliðstæðum glömpum.

      Flest gervitungl nota loftnet sem hafa skálarlögun, en Iridíumtunglin bera nýja gerð loftneta sem eru flöt og líta út eins og stórir speglar, 1,6 fermetrar að flatarmáli. Hvert gervitungl hefur þrjú slík loftnet sem endurvarpa sólarljósinu, og ef athugandi lendir í einhverjum geislanna sér hann glampa sem getur verið hundraðfalt bjartari en Venus. Jafnvel í hundrað kílómetra fjarlægð frá miðju geislans getur glampinn verið á við björtustu fastastjörnu. Þeir sem líta til himins að næturlagi geta átt von á að sjá þessum ljósum bregða fyrir hvenær sem er, að minnsta kosti í nánustu framtíð.

      Með því að fara inn á vefsíðu þýsku geimrannsóknastöðvarinnar GSOC er hægt að fá nákvæma útreikninga á því hvenær Iridíumblossarnir eiga að sjást frá hvaða stað sem er. Þessi þýska miðstöð veitir einnig upplýsingar um önnur gervitungl og margt fleira.
Sjá gervitunglaspá.

Þ.S. apríl 1998 

-----------------------
    Viðbót 22.2. 2001.

    Samkvæmt frétt í breska tímaritsinu Spaceflight hefur rekstur Iridíumkerfisins nú verið tryggður til langframa með samningi við bandaríska hermálaráðuneytið. Samningurinn tryggir bandaríska hernum ótakmarkaðan aðgang að kerfinu fyrir þrjár milljónir dala á mánuði. Jafnframt lækkar kostnaður annarra notenda úr $7 á mínútuna í $1.50 á mínútu.  Virk tungl í kerfinu eru nú 66 eins og fyrr sagði og tvö til vara. Fyrirhugað er að skjóta upp 12 tunglum í viðbót. Talið er að ein ástæðan fyrir því að hermálaráðuneytið gerði samninginn sé sú að menn hafi óttast að brot úr gervitunglunum kynnu að valda tjóni ef þau væru látin falla til jarðar. Í tunglunum eru eldsneytisgeymar úr títani, svo og rafgeymar sem hugsanlega gætu náð til jarðar án þess að brenna upp í andrúmsloftinu. Ekki er vitað til þess að nokkur maður hafi slasast af völdum þeirra fjögur þúsund gerivitungla sem hrapað hafa síðan geimskot hófust árið 1957. Meiri hætta stafar af neðri þrepum eldflauga sem losuð eru frá og látin falla meðan á geimskoti stendur. Brot úr slíku þrepi drap kú á Kúbu á sjöunda áratugnum og olli hvössum orðaskiptum milli Fidels Castro og Eisenhowers Bandaríkjaforseta!

   Viðbót 27. 1. 2017.

   Í janúar 2017 var 10 Iridíum gervihnöttum af nýrri gerð skotið á loft með flaug af gerðinni Falcon 9. Sú flaug var smíðuð af einkarekna fyritækinu SpaceX sem mjög hefur látið til sín taka síðan það var stofnað í Kaliforníu árið 2002. Hin nýju tungl eru mun fullkomnari en hin eldri og eiga að taka við af þeim smám saman. Sá böggull fylgir þó skammrifi að nýju tunglin munu ekki endurvarpa sólarljósi á sama hátt og hin eldri, svo að iridiumblossunum mun fækka þegar fram líða stundir.    
 

Almanak Háskólans