Halastjarna á himni

Þessa dagana (síðla marsmánaðar) er halastjarna sýnileg á kvöldhimninum. Hún er ekki mjög björt (birtustig 3-4) en sést þó með berum augum og auðveldlega í handsjónauka. Á dimmum himni sést greinilega hali sem er 1-2 gráður á lengd, en glöggir athugendur segja hann vera mun lengri.

Halastjarna þessi heitir C/2002 C1 eða Ikeya-Zhang eftir þeim sem fundu hana hinn 1. febrúar 2002. Reyndar voru það þrír áhugamenn sem komu auga á hana sama kvöldið. Fyrstur var Japaninn Kaoru Ikeya, síðan Kínverjinn Daqing Zhang og loks Brasilíumaðurinn Paulo Raymundo. Nánari upplýsingar um fundinn, svo og myndir af halastjörnunni, er að finna á vefsíðu Gary W. Kronk sem er mikill áhugamaður um halastjörnur og hefur gefið út bók um það efni. Ikeya er þekktur vegna annarrar halastjörnu sem hann fann og við hann er kennd. Það var halastjarnan Ikeya-Seki sem sást árið 1965 og var einhver sú bjartasta sem um getur. Hún sást greinilega um hábjartan dag.

Braut hinnar nýfundnu halastjörnu líkist mjög braut halastjörnu sem sást árið 1661, og hugsanlega hefur hún líka sést árin 1277 og 877.  Útreikningar benda til þess að umferðartími hennar um sólu sé 367 ár (umferðartíminn getur breyst vegna truflana frá reikistjörnunum). Hafi þessi halastjarna sést áður, hefur hún lengstan umferðartíma þeirra halastjarna sem sést hafa oftar en einu sinni og heimildir eru um. Fyrra metið var 155 ár. 

Halastjarnan var næst sólu 18. mars, helmingi nær sólu en jörðin. Fjarlægð hennar frá jörð var þá 0.8 stjarnfræðieiningar (120 milljón km). Halastjarnan er nú í fiskamerki á norðurleið og gengur í stjörnumerkið Andrómedu í mánaðarlok. Hún hækkar því stöðugt á lofti frá Íslandi séð. Á móti því kemur að tungl fer vaxandi og lýsir upp himin þannig að erfiðara verður að sjá daufan halann. Tungl er fullt 28. mars, en eftir 30. mars kemur það svo seint upp að það hindrar ekki athuganir. Reiknað er með að birta halastjörnunnar verði í hámarki kringum 25. mars en fari síðan minnkandi. Slíkum útreikningum ber þó að taka með fyrirvara því að erfitt er að spá fyrir um hegðun halastjarna.

Átt og hæð halastjörnunnar séð frá Reykjavík á næstu vikum verður sem hér segir:

Dagsetning Kl. 21 Kl. 22 Kl. 23 Kl. 24 Kl. 01
19. mars V  19° VNV  13° NV  7° NV  2°  
26.mars VNV  24° VNV  18° NV  13° NNV  9° NNV  6°
2. apríl   NV  22° NNV  18° NNV  16° N  14°
9. apríl   NNV  27° NNV  24° N  23° N  23°

Athuga ber að dagsetningin á við tímana frá kl. 21 til 24. Í aftasta dálkinum er komin ný dagsetning.
Þeir sem búa utan Reykjavíkur geta stuðst við þessa sömu töflu því að munurinn er ekki ýkja mikill milli landshluta.

Viðbót 23. apríl

Seinni hluta apríl og í byrjun maí verður halastjarnan farin að dofna og birta himins að aukast. Er þá best að leita að halastjörnunni í sjónauka eftir stjörnuhnitum. Eftirfarandi tafla sýnir stöðu hennar og væntanlega birtu í birtustigum (sbr. skýringar í almanakinu á bls. 59 og stjörnukort á bls.71). Tímarnir miðast við upphaf dags (kl. 00). Hnitin eru fengin frá reikistirnamiðstöðinni (Minor Planet Center) í Bandaríkjunum. Sigurður V. Kristinsson, Skarði, Breiðdal, sá stjörnuna að kvöldi 21. apríl, en gat þá ekki lengur greint halann í 10x50 handsjónauka.

 

Dagsetning Stjörnulengd Stjörnubreidd Stjörnumerki Birtustig
23. apríl 21h 35m +61° 05 Sefeus 4,8
24. apríl 21h 17 m +61° 22 Sefeus 4,9
25. apríl 20h 59m +61° 29 Sefeus 4,9
26. apríl 20h 40m +61° 27 Sefeus 5,0
27. apríl 20h 21m +61° 15 Sefeus 5,0
28. apríl 20h 02m +60° 53 Sefeus 5,1
29. apríl 19h 44m +60° 22 Drekinn 5,2
30. apríl 19h 27m +59° 41 Drekinn 5,2
1. maí 19h 10m +58° 53 Drekinn 5,3
2. maí 18h 54m +57° 56 Drekinn 5,4
3. maí 18h 39m +56° 53 Drekinn 5,5
4. maí 18n 25m +55° 44 Drekinn 5,6
5. maí 18h 12m +54° 29 Drekinn 5,6
6. maí 18h 00m +53° 10 Drekinn 5,7
7. maí 17h 48m +51° 48 Drekinn 5,8
8. maí 17h 38m +50° 23 Herkúles 5,9

Snævarr Guðmundsson tók þessa mynd af halastjörnunni að kvöldi 18. mars. Sá hluti halans sem sést á myndinni er um 1,5 milljón km að lengd, en daufari slæða nær mun lengra út í geiminn. Myndin er tekin með stjörnusjónauka sem er 30 cm í þvermál.

 
Þ.S. 23.3. 2002
Viðbót 23.4. 2002