Þegar Galíleó Galílei beindi sjónauka sínum að Satúrnusi árið 1610 sá
hann móta fyrir hringunum frægu, en sjónaukinn var ekki nógu góður til
að lögun þeirra yrði greind. Sá sem fyrstur lýsti þeim sem hringum var
hollenski stjörnufræðingurinn Christiaan Huygens árið 1655. Huygens sá
þó aðeins einn samfelldan hring. Árið1675 uppgötvaði ítalski stjörnufræðingurinn Giovanni Cassini að hringarnir voru í raun tveir, aðskildir með eyðu sem síðan heitir Cassini-geilin. Þessir hringar eru kallaðir A og B og eru þeir einu sem sjást með litlum stjörnusjónaukum frá jörðu. Þriðji hringurinn, C, oft kallaður grisjuhringurinn eða "krep"-hringurinn, fannst árið 1850. Þeir sem fyrst urðu hans áskynja voru William C. Bond og George P. Bond við Harvard stjörnustöðina í Bandaríkjunum. Þeir feðgar komu auga á dökka rák sem skyggði á Satúrnus innan við B hringinn, næst reikistjörnunni. Charles W. Tuttle, sem þá var við nám á sama stað, kom með þá tilgátu að þetta myndi vera sérstakur hringur. Á árunum 1907 og 1908 vöknuðu grunsemdir um fjórða hringinn, daufan mjög, utan við hina þrjá. Meðal þeirra sem þóttust sjá örla fyrir hringnum voru Frakkinn Georges Fournier og Svisslendingurinn Emile Schaer. Walter A. Feibelman við Allegheny stjörnustöðina í Bandaríkjunum náði óskýrum ljósmyndum af fyrirbærinu árið 1967. Endanleg staðfesting á tilvist þessa hrings fékkst svo þegar geimflaugin Pioneer 11 fór fram hjá Satúrnusi árið 1979. Hringurinn var í fyrstu nefndur D-hringur en nafninu var síðar breytt í E. Árið 1969 taldi franski stjörnufræðingurinn Pierre Guérin við Pic du Midi stjörnustöðina í Pyreneafjöllum að hann hefði séð hring næst Satúrnusi, innan við grisjuhringinn (C). Sá fundur fékkst ekki staðfestur á myndum frá Pioneer 11 eða Voyager 2 og er nú talinn sjónblekking. Þessi ímyndaði hringur kallaðist D-hringur. Á myndunum frá Pioneer 11 fannst einn hringur í viðbót, F-hringurinn. Síðasti hringurinn, G, kom í leitirnar þegar Voyager geimflaugarnar könnuðu Satúrnus árin 1980 og 1981. Talið frá Satúrnusi er röð hringanna þessi: C, B, A, F,G, E. Myndir frá Voyager flaugunum sýndu að hringarnir eru mun flóknari að gerð en áður var talið og eru undir sterkum áhrifum frá tunglum Satúrnusar. Í október 2009 var tilkynnt að fundist hefði afar daufur en breiður hringur sem fylgir braut tunglsins Föbe. Hringur þessi er langt utan við hið hefðbundna hringakerfi, myndar 27° horn við það og er talinn myndaður af smágerðum ögnum sem dreifst hafi frá Föbe eftir árekstra við reikisteina. Hann hefur aðeins greinst í innrauðu ljósi úr geimsjónauka en sést ekki frá jörðu. Ofangreind lýsing er samantekt úr mörgum heimildum. Sú nýjasta er grein í maíhefti (2015)tímaritsins Sky & Telescope og fjallar um D hringinn. Lesendum skal einnig bent á yfirlit Ron Baalke á vefsíðu bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Ágæta myndskreytta lýsingu á hringunum er að finna á "Stjörnufræðivefnum". Þ.S. 8. júní 2009. Síðasta viðbót 20. 4. 2015. |