Í kaflanum "Hnettir himingeimsins" í almanakinu segir að hraði staðar á miðbaug vegna snúnings jarðar sé 1674 km/klst. Snúningsstefnan er til austurs. Hraðinn minnkar eftir því sem lengra dregur frá miðbaug, og á breiddargráðu Reykjavíkur nemur hann 730 km/klst. Til viðbótar er jörðin öll á ferð umhverfis sólina. Hraðinn er lítið eitt breytilegur, frá 29,4 km á sekúndu þegar jörð er fjærst sól, upp í 30,4 km/s þegar jörð er næst sól. Meðalhraðinn er 29,8 km á sekúndu eða 107 þúsund kílómetrar á klukkustund. Nú er þvermál jarðar tæpir 13 þúsund kílómetrar. Það merkir að jörðin færist um eitt þvermál sitt á hverjum sjö mínútum. Ekki er þá öll sagan sögð, því að jörðin fylgir sólinni á hreyfingu umhverfis miðju hins mikla stjörnukerfis Vetrarbrautarinnar. Sú hreyfing nemur 220 kílómetrum á sekúndu, eða 790 þúsund kílómetrum á klukkustund. Þótt hraðinn sé mikill er vegalengdin slík að sólin er 235 milljón ár að fara eina umferð um miðju Vetrarbrautarinnar. Vetrarbrautin sjálf er svo á ferð sem mælist 2 milljón km/klst. miðað við örbylgjukliðinn í alheiminum. Með þeim hraða tekur það Vetrarbrautina um um 80 milljón ár að hreyfast sem svarar þvermáli sínu. Á þeim tíma hafa sól og jörð gengið þriðjung af leið sinni um miðju Vetrarbrautarinnar. Þ.S. 23.2. 2019 |