Hvaða reglur gilda um hlaupár?
Um síðustu aldamót veltu margir því
fyrir sér hvort árið 2000 yrði hlaupár. Flestir
kunna þá reglu að hlaupár sé fjórða
hvert ár, þegar talan 4 gengur upp í ártalinu.
En menn hafa líka heyrt um undantekningar á aldamótum
þegar ártalið endar á "00". Þetta olli því
að ýmsir voru í vafa.
Það er rétt, að í því
tímatali sem við fylgjum nú, gildir sérstök
regla um þessi aldamótaár. Þau eru ekki hlaupár
nema talan 400 gangi upp í ártalinu. Líka má
orða það svo, að talan 4 þurfi að ganga upp
í (tveimur) fremstu stöfum ártalsins, aldatalinu. Af
því leiðir að árið 2000 var hlaupár,
en árin 2100, 2200 og 2300 verða ekki hlaupár. Árið
2400 verður svo aftur hlaupár. Með öðrum orðum:
þrjú af hverjum fjórum aldamótaárum falla
úr tölu hlaupára og verða almenn ár.
Ef við förum aftur í tímann
var árið 1900 ekki hlaupár og ekki heldur árið
1800, en árið 1700 var hlaupár á Íslandi
af þeirri ástæðu að núgildandi tímatal,
með breyttri hlaupársreglu (gregoríanska tímatalið)
kom ekki til framkvæmda hér á landi fyrr en í
nóvember árið 1700, en þá hafði febrúar
þegar fengið 29 daga.
Reglur um hlaupár eru settar til að samræma
lengd almanaksársins og árstíðaársins.
Árstíðaárið ræðst af gangi jarðar
um sólu og er sem stendur 365 dagar 5 stundir 48 mínútur
og 45 sekúndur að meðaltali. Lengd almanaksársins
er eins og allir vita ýmist 365 eða 366 dagar, en meðallengdin
er venjulega talin 365 dagar 5 stundir 49 mínútur og 12 sekúndur.
Samkvæmt þessu er almanaksárið að meðaltali
27 sekúndum lengra en árstíðaárið.
Þessi munur verður að einum degi á um það
bil 3200 árum og er þess oft getið í bókum.
Sú tala væri rétt ef bæði árstíðaárið
og almanaksárið héldu óbreyttri lengd. En því
er ekki að heilsa. Lengd árstíðaársins breytist
lítils háttar með tímanum og styttist nú
um 5 sekúndur á hverjum þúsund árum.
Lengd almanaksársins getur líka breyst, því
að á síðustu árum hafa menn tekið upp
á því að skjóta inn aukasekúndum
(sem kalla mætti hlaupsekúndur) á miðju ári
eða um áramót til mótvægis við hægfara
breytingu á snúningshraða jarðar. Að undanförnu
hefur þetta verið gert um það bil einu sinni á
ári, og við það hefur munurinn sem áður
var nefndur aukist úr 27 sekúndum í 28 eða þar
um bil. Ef breytingarnar verða með sama hraða í framtíðinni
(sem engin vissa er um) myndi frávik almanaksárs frá
árstíðaári nema einum degi á 2500 árum.
Međfylgjandi mynd sýnir hvernig dagsetningar jafndćgra og
sólhvarfa breytast á 400 ára tímabili. Áhrif hlaupáranna til leiđréttingar sjást glögglega, bćđi á fjögurra ára fresti og á aldamótum.
Tölurnar viđ lóđrétta ásinn tákna dagsetningar í viđkomandi mánuđum: mars (grćnn
litur), júni (rauđur), september (svartur) og desember (blár).
Gregoríanska tímatalið eða
"nýi stíll" er kennt við Gregoríus páfa
13. sem innleiddi það í Róm árið 1582.
Það kom strax til framkvæmda meðal rómversk-kaþólskra
þjóða, en mótmælendur og grísk-kaþólskir
fóru sér hægar. Þegar grísk-kaþólska
rétttrúnaðarkirkjan leiðrétti um síðir
tímatal sitt, árið 1923, vildu leiðtogar þeirrar
kirkju ekki fallast á hlaupársreglu páfagarðs
en samþykktu í staðinn enn nákvæmari reglu.
Samkvæmt henni skyldu tvö af hverjum níu aldamótaárum
vera hlaupár (þau ár sem gefa 2 eða 6 í
afgang þegar deilt er í aldatalið með 9). Meðallengd
almanaksáranna í þessu rétttrúnaðartímatali
reiknast 365 dagar 5 stundir 48 mínútur og 48 sekúndur,
og skakkar þá aðeins 3 sekúndum eða svo frá
lengd árstíðaársins. Tímatali rétttrúnaðarkirkjunnar
ber saman við hið gregoríanska fram til ársins 2800. Ţá ćtti að verða hlaupár samkvæmt
okkar tímatali en ekki hjá þeim rétttrúuðu.
Hvort hlaupársreglunum verđur fylgt svo lengi skal ósagt látiđ.
(Sjá enn fremur ţessa grein: "Saga
hlaupáranna")
Ţ.S. okt. 1999. Síđasta viđbót í febrúar 2017.
|