Heimskautsbaugurinn

      Heimskautsbaugar heita baugar sem dregnir eru á landabréf nálægt 66,5° norðlægrar og suðlægrar breiddar. Flestir Íslendingar vita að heimskautsbaugurinn nyrðri liggur rétt við nyrstu annes Íslands og þvert yfir Grímsey. Heimskautsbaugarnir eiga að afmarka þau svæði við heimskaut jarðar þar sem sólin (nánar tiltekið sólmiðjan) getur horfið undir sjónbaug í heilan sólarhring eða lengur að vetrinum en getur þá jafnframt verið á lofti heilan sólarhring eða lengur að sumrinu þannig að sjá megi miðnætursól. Skilgreining bauganna miðast við það að athugandinn sé við sjávarmál og tekur ekki tillit til ljósbrots í andrúmsloftinu sem hefur áhrif á sólarhæðina.

      Ef menn vilja staðsetja heimskautsbaugana með nákvæmni, verður að láta breidd þeirra fylgja horninu sem möndull jarðar myndar við jarðbrautarflötinn. Þetta horn er ekki óbreytanlegt heldur tekur það hægum breytingum og er ýmist að vaxa eða minnka. Aðalsveiflan tekur um 40 þúsund ár, þannig að tíminn sem líður frá lágmarki til hámarks er um það bil 20 þúsund ár. Útreikningar hafa sýnt að á síðustu fimm milljón árum hefur hornið mest orðið 68,0° en minnst 65,5°. Sem stendur er hornið nálægt 66,56° (66° 33,5') og vex um 0,01° á hverri öld. Þótt heimskautsbaugurinn hafi áður fyrr snert nyrsta odda Íslands, gerir hann það ekki lengur, sbr. hnattstöðutölur á bls. 96 í almanakinu. Hins vegar liggur baugurinn enn yfir Grímsey eins og sýnt er á meðfylgjandi mynd. Baugurinn færist skrykkjótt norður á bóginn um 1,5 km á öld að meðaltali og verður kominn norður fyrir eyna eftir miðja 21. öld.

(Úr Almanaki Háskólans 1991 međ lítilsháttar breytingu)  
Ţ.S. apríl 1998
Síđast breytt 13.4. 2002