Hálf öld er nú liðin síðan fyrsta gervitunglinu var skotið á loft. Á
hverju ári bætast ný í hópinn svo að fjöldi virkra gervitungla nálgast
nú þúsundið. En auk þeirra er á brautum um jörðu fjöldi tungla sem orðin
eru óvirk, hlutar úr eldflaugum, brot eftir sprengingar og úrgangur frá
mönnuðum geimförum, jafnvel áhöld sem geimfarar hafa misst úr höndum
sér. Þessir hlutir, smáir og stórir, lenda í árekstrum hver við annan og
við það verða til fleiri brot, sífellt meira rusl í geimnum. Menn hafa
nú auknar áhyggjur af því að þetta geimrusl geti valdið skemmdum á
gervitunglum og torveldað mannaðar geimferðir í framtíðinni. Þeir
hlutir sem fylgst er með og ganga eftir þekktum brautum eru nú um 14
þúsund. Þar er um að ræða hluti sem eru 10 cm í þvermál eða meira. Ekki
er unnt að fylgjast með minni hlutum, en talið er að brot sem eru 1-10 cm
í þvermál skipti hundruðum þúsunda. Minni agnir skipta áreiðanlega milljónum.
Brot sem er 1 cm í þvermál gæti eyðilagt gervitungl, og ögn sem er
millimetri í þvermál gæti hæglega sett gat á búning geimfara, því að
hraðinn er á við byssukúlu. Dæmi er um að gervitungl hafi skemmst við að
rekast á geimrusl, og í eitt skipti þurfti að breyta braut alþjóðlegu
geimstöðvarinnar til að forðast árekstur við málmstykki. Sumt af því rusli sem er á braut um jörðu er geislavirkt því að geislavirk efni hafa verið notuð til orkuframleiðslu í allmörgum gervitunglum. Lofthjúpur jarðar sér til þess að rusl sem er tiltölulega nærri jörðu muni á endanum brenna upp eða falla til jarðar. En ofan við 600 km hæð eða svo eru hemlunaráhrif lofthjúpsins hverfandi lítil. Menn sjá enga leið til að hreinsa upp rusl sem er svo langt frá jörðu, en þar er að finna fjölda mikilvægra gervitungla. Heimild: Tímaritið
Spaceflight, septemberhefti 2007 og New Scientist, 8. september 2007. Þ.S. 1. september 2007. Viðbót 18. sept. 2007. |