Flóðtöflur almanaksins Af þeim margvíslega fróðleik sem finna má í Almanaki Háskólans eru tölur um flóð og fjöru líklega það sem flestir nýta sér. Tafla um árdegisflóð í Reykjavík birtist í fyrsta sinn í almanakinu árið 1904. Árið 1971 var síðdegisflóðinu bætt við, og eftir 1993 hefur almanakið sýnt tíma bæði flóðs og fjöru í Reykjavík. Frá upphafi hafa fylgt upplýsingar um tímamun sjávarfalla í Reykjavík og á stöðum úti á landi. Þær tölur hafa verið endurskoðaðar þegar mælingar hafa gefið tilefni til. Fyrir nokkrum árum tók undirritaður saman yfirlit um
sjávarfallaspár á Íslandi og birti í tímaritinu Náttúrufræðingnum (sjá
hér). Þar var meðal annars lýst athugun á fráviki flóðs og fjöru
frá sjávarfallaspá almanaksins árin 1993 og 1995. Notuð voru línurit
úr sjávarhæðamælum Sjómælinga Íslands. Sams konar athugun var
síðar gerð fyrir árið 2000. Þá voru gögnin með öðru sniði,
tölvuprentuð punktarit þar sem hver punktur táknaði tíu mínútna
meðtal. Dæmi er sýnt hér fyrir neðan. Þetta er línurit fyrir 77. dag ársins 2000. Tíminn er sýndur í mínútum dagsins og flóðhæðin í metrum. Punktalínan er mat tölvuforrits, en ekki var það mat látið ráða við ákvörðun á tíma eða hæð. Að þessu sinni var athugunin einskorðuð við flóðin en fjörunni
sleppt. Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig frávikin frá spánni
dreifast, annars vegar í flóðtíma (í mínútum) og hins vegar í
flóðhæð (í metrum) |
|
Ef við setjum helstu einkenni dreifingarinnar upp í töflu og berum saman við fyrri athugun kemur eftirfarandi í ljós:
Við sjáum í fyrsta lagi að meðalfrávikið hefur lítið breyst milli ára, hvorki í tíma né hæð. Við flóðaspár í almanakinu er notað forrit sem Ólafur Guðmundsson samdi árið 1991. Samkvæmt athugunum Ólafs á gögnum Sjómælinganna 1956-1989 hækkar sjávarborð um 2,4 cm á áratug. Þessi hækkun kemur ekki skýrt fram í töflunni hér að ofan, en tölurnar eru þó allar jákvæðar (2-3 cm). Staðalfrávikið í tímatölunum er helmingi minna árið 2000 en fyrri ár. Þetta stafar að líkindum af því að gögnin voru með hentugra sniði sem dró úr líkum á tímavillum í aflestri. Breytingin virðist hins vegar ekki hafa skipt máli fyrir ákvörðun á flóðhæð. Hefði þó mátt ætla að tíu mínútna meðaltöl leiddu til minni dreifingar í hæðartölum. Hámarks- og lágmarkstölur eru á svipuðu róli og áður. Í greinargerðinni sem birt var í Náttúrufræðingnum segir: "Af myndunum má ljóst vera að sjávarfallaspám er alls ekki treystandi upp á mínútu í tíma eða upp á sentimetra í hæð. Vissara er að gera ráð fyrir að tímaskekkjan geti numið 25 mínútum eða svo og hæðarskekkjan 30 cm. Skekkjurnar stafa aðallega af áhrifum veðurs sem ekki er unnt að sjá fyrir þegar spáin er reiknuð." Þessi varnaðarorð eru enn í gildi. Í ljósi mælinganna fyrir árið 2000 mætti þó lækka líkleg takmörk tímaskekkju úr 25 í 15 mínútur. Er þá miðað við tvöfalt staðalfrávik (95% líkur) svo sem algengt er. Pálmi Ingólfsson og Svanhildur Þorsteinsdóttir unnu við aflestur á flóðritum ársins 2000. 3. október 2014 Þorsteinn Sæmundsson |