Forsíða

Fjarreikistjörnur - fyrstu mælingarnar hérlendis 

Fyrir þremur árum var greint frá því á þessum vef að tekist hefði að greina merki hérlendis um reikistjörnur í fjarlægum sólkerfum (sjá hér). Það var Snævarr Guðmundsson stjörnuáhugamaður sem leysti þessa þraut. Nú hefur Snævarr rýnt í eldri mælingar sem hann átti í fórum sínum og sent umsjónarmanni vefjarins eftirfarandi bréf:

Sæll Þorsteinn,

Veturinn 2010-2011 reyndi ég að mæla fjarreikistjörnurnar HAT-P-10b/Wasp 11b (14.11.2010) og XO-5b (27.11.2010). Þetta var um tveim árum fyrr en þær mælingar sem sagt er frá á almanaksvefnum. Á þeim tíma hafði ég takmarkaða þekkingu á hvernig haga skyldi vandasamri gagnaöflun og úrvinnslu, en lét það samt ekki aftra mér frá að reyna. Í úrvinnslunni notaði ég fremur óheppilegt ljósmælingaforrit fyrir svona mælingar. Það varð til þess að eftir langa mæðu og margra kvölda erfiði, sáust ekki nokkrar vísbendingar um þvergöngur fjarreikistjarnanna. Þetta voru mikil vonbrigði auðvitað og drógu úr trú minni á að geta nokkru
sinni numið slíka atburði. Að sjálfsögðu sagði ég engum frá þessu, bar vonbrigðin í hljóði. Tveim árum seinna, eftir að hafa lært hvernig haga skyldi aðferðum og séð árangurinn sem segir frá á almanaksvefnum, gaf ég þessi gögn upp á bátinn enda var svo margt sem hafði verið gert
rangt í gagnaöflun og því var ég sannfærður um að þessar myndir væru einskis virði.

Myndirnar voru samt alltaf geymdar. Ég hef ekki velt þeim mikið fyrir mér fyrr en nú fyrir stuttu. Þá ákvað ég að reyna að komast að því hvort engar vísbendingar birtust um þvergöngurnar, þar sem ég hef nú mun betra forrit og meiri reynslu í ljósmælingum en fyrir sex árum síðan. Og viti
menn, mér hafði tekist að nema þvergöngurnar. Þær voru ekki eins skýrar og síðar varð en ég ákvað samt að senda þær og láta meta. Ég sá í kvöld að ETD hafa samþykkt þessar mælingar. Þær eru á: http://var2.astro.cz/tresca/transit-detail.php?id=1457906997
(Stjarnan HAT-P-10b/Wasp 11b, 14.11.2010) og
http://var2.astro.cz/tresca/transit-detail.php?id=1458079276
(Stjarnan XO-5b, 27.11.2010).
Þetta er staðfesting á að hafa numið þvergöngur fjarreikistjarna tveim árum fyrr en fram kemur á vefnum. Í vetur tókst mér einnig að mæla þvergöngu HAT-P-9b: (http://var2.astro.cz/tresca/transit-detail.php?id=1456354270)
og vorið 2014 mældi ég Kelt-3b:
(http://var2.astro.cz/tresca/transit-detail.php?id=1393543217).
Það eru því nokkrar fleiri þvergöngur sem tekist hefur að nema á síðustu 6 árum, þó afköstin séu lítil í samanburði við það sem gerist erlendis.

Bestu kveðjur,
Snævarr
 

Þ.S. 29.3. 2016