Stærð reikistirnisins Erisar endurmetin Hinn 6. nóvember 2010 gekk reikistirnið Eris fyrir fastastjörnu og myrkvaði hana. Stjarnan var á birtustustigi 16, en Eris er um þremur birtustigum daufari (birtustig 19). Stjörnufræðingar höfðu reiknað út að myrkvinn myndi sjást í Suður-Ameríku, nánar tiltekið í Síle, og að hann myndi vara í allt að 3 mínútur ef athugandinn væri í miðju myrkvasvæðinu. Breidd þess svæðis á jörðinni samsvarar breidd Erisar, sem talin var um 2400 km, heldur meiri en þvermál Plútós. Nokkur óvissa hefur ríkt um stærð reikistirnisins og stóðu vonir til að athuganir á myrkvanum gæfu nákvæmari upplýsingar um hana. Samkvæmt síðustu fréttum sást stjörnumyrkvinn frá a.m.k. þremur stöðum í Síle. Lengsti myrkvinn varði í 1 mínútu og 16 sekúndur. Úrvinnslu gagna er ekki lokið, en þeir sem að henni vinna segjast þó geta fullyrt að Eris sé minni en áður var talið, örlítið minni en Plútó, um 2320 km í þvermál (þvermál Plútós er 2390 km). Miðað við stærð endurvarpar Eris ótrúlega miklu sólarljósi svo að yfirborðið hlýtur að vera snjóhvítt. Mynd af stjörnumyrkanum, tekin með sjónauka í San Pedro de Atacama, hefur verið sett á vefinn YouTube (sjá hér). Þ.S. 21.11. 2010. |