Um stafsetningu ríkjaheita í almanakinu

    Stafsetning ríkjaheita hefur ætíð verið nokkurt ágreiningsefni. Lesendur Almanaks Háskólans hafa eflaust tekið eftir því, að í skránni um ríki heimsins, sem staðið hefur í almanakinu síðan 1988, er stafsetning sums staðar frábrugðin þeirri sem þeir hafa vanist. Sérstaklega hafa menn undrast að nöfnin Egiptaland og Kípur skuli rituð með "i" og "í" í stað "y" og "ý". Til að skýra þetta mál skal vísað til greinar sem Baldur Jónsson prófessor og þáverandi forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar ritaði í  Málfregnir, tímarit Íslenskrar málnefndar, 2. árg. 1. tbl., maí 1998. Grein þessi er endurbirt hér.


 

BALDUR JÓNSSON
 

Egiptaland og Kípur

Inngangur
Eitt af þeim vandamálum, sem nú er við að glíma í íslenskri stafsetningu, er ritun landa- og ríkjaheita. Mörg ríki hafa komið til sögunnar á síðustu árum eða áratugum og eiga sér nöfn sem Íslendingum eru enn ótöm. Þá getur verið erfitt að átta sig á stafsetningu þeirra. Önnur eru ævagömul, hafa verið nefnd á íslenskum bókum allt frá elstu ritum til vorra daga og eru íslensk nöfn þótt stofninn kunni að vera útlendur. Það á við um landaheitin Egiptaland og Kípur. 
    Þessi tvö nöfn eru rituð á marga vegu: Egiftaland, Egiptaland, Egyftaland, Egyptaland; Kípur, Kýpur; og enn fleiri tilbrigði hafa sést. Þegar margra kosta er völ í máli er spurt hver sé bestur eða réttastur. Slíkum spurningum er beint til málfræðinga, eins og eðlilegt er. Þeir eiga að hafa til þess betri skilyrði en aðrir að gera upp á milli kosta í máli og stafsetningu, og þeim er því siðferðislega skylt að reyna að svara. En það er ekki alltaf auðvelt. Til dæmis er því ekki auðsvarað hvernig réttast sé að rita nafn Egiptalands. Þar kemur fleira en eitt til álita. Hér á eftir ætla ég samt að velta þessari spurningu fyrir mér að gefnum ýmsum tilefnum að undanförnu, og nafnið á Kípur fær að fljóta með af sömu ástæðum. Leitað verður niðurstöðu í samræmi við meginreglur sem farið er eftir í íslenskri réttritun. Hyggjum fyrst að þeim. 
    Þegar til álita kemur hvort rita skal i eða y, í eða ý, ft eða pt er upprunasjónarmið látið ráða (sbr. Íslenska réttritun (1974) eftir Halldór Halldórsson, bls. 49-50 og 118-119). Ef um er að ræða erlenda orðstofna eins og í Egiptaland og Kípur ræður úrslitum hvað "upprunalegt" er í íslensku, en ekki hvaða hljóð eða ritháttur tíðkaðist í upphafsmálinu þótt einhver teldi sig geta hent reiður á því. Þess vegna er svarið við spurningunni um réttritun nafnanna Egiptaland og Kípur háð því hvenær þessi nöfn komust fyrst í notkun sem íslensk landaheiti og hvernig þau voru þá fram borin og stafsett. 

i eða y, í eða ý
Fyrr á öldum gerðu Íslendingar greinarmun á i og y í framburði, enn fremur á í og ý og slíkt hið sama á ei og ey. Undir lok miðalda tók framburður að breytast þannig að hljóðin, sem táknuð voru með bókstöfunum y og ý, hurfu úr sögunni og runnu saman við þau hljóð sem stafsett voru i og í. Þessi breyting fer ekki að gera vart við sig að neinu ráði fyrr en upp úr 1500, þ.e. skömmu fyrir siðaskipti, og er að mestu leyti um garð gengin í lok 16. aldar. Þess vegna má nokkurn veginn treysta því, að [y], þ.e. uj-hljóð, hafi verið borið fram þar sem y var skrifað í miðaldahandritum og uj-hljóð hafi ekki verið borið fram þar sem ritað var i. Forn stafsetning sker því úr um það hvort rita skal i eða y, í eða ý í nútímamáli nema sérstaklega standi á. 
    Við skrifum enn dyr, dýr og deyr þó að enginn beri lengur fram uj-hljóð í þessum orðum. Og í riti gerum við enn greinarmun á skin og skyn, tína og týna, leifa og leyfa, þó að hann sé ekki lengur gerður í töluðu máli. 
    Enn fremur skrifum við y eða ý í orðum sem yngri eru en framburðarbreytingin ef þau eru af innlendum stofnum, sem uj-hljóð var í, eða afleidd þannig að þau hefðu verið borin fram með uj-hljóði ef til hefðu verið í málinu fyrir miðja 16. öld eða svo. Þetta á til dæmis við um orðið spyrill sem ekki eru heimildir um fyrr en á þessari öld og talið vera nýyrði. Það er leitt af stofni sagnorðsins spyrja (þt.spurði) og stafsett samkvæmt því. 
    Hins vegar er meginreglan sú að skrifa ekki y eða ý, heldur i eða í í tökuorðum sem bæst hafa í búið eftir að uj-hljóðið hvarf af vörum þjóðarinnar, þótt það hljóð sé að finna í málinu sem orðið er komið úr eða þar sé ritað y. Ef um fullgilt tökuorð er að ræða, þ.e. orð sem hlítir fyllilega íslenskum málreglum, kemur ekki til að þar sé, eða hafi nokkru sinni verið, uj-hljóð í íslensku. Sem dæmi má nefna orðið revía. Eðlilegt er að rita það svo samkvæmt íslenskum framburði, þótt það eigi rætur að rekja til franska orðsins revue sem er borið fram með uj-hljóði (sbr. einnig d. revy). Einnig mætti nefna orðið partí. Það er komið úr e. party. Þar er ritað y þótt ekki sé fram borið uj-hljóð. En í íslensku er engin ástæða til að hafa þann háttinn á. Ekki er heldur ástæða til að rita ý í orðinu pappír þótt það eigi rætur að rekja til gr. papyros (lat. papyrus). Það kemur ekki til sögunnar fyrr en um það bil sem uj-hljóðið er á förum úr íslensku máli og ósennilegt að Íslendingar hafi nokkru sinni borið það fram með uj-hljóði. Þá skiptir ekki máli hvað aðrar þjóðir kunna að gera eða hafa gert. 
    Það samræmist ekki íslenskri réttritun að hafa tökuorð af grískum uppruna með y eða ý þótt ufsílon sé í grísku orðunum eða stofnunum. Því er ritað: kristallur (gr. krystallos), píramídi (gr. pyramis), simfónía (gr. symphonia).
     Þetta eru meginreglur. En eins og við er að búast getur brugðið út af í einstaka orðum og þannig skapast hefð sem brýtur í bága við þær. Ef hún er nógu eindregin hlýtur hún viðurkenningu í réttritun. En undantekningar breyta því ekki að meginreglur ber að virða. 

f eða p
Nú á dögum er enginn greinarmunur í framburði á ft og pt. Til þess að skera úr um rithátt þarf því að leita upprunans eins og þegar i og y eru annars vegar. En nú er lítil stoð í fornum ritum því að munurinn á ft og pt virðist vera horfinn úr íslenskum framburði þegar um 1200. Sama orð er skrifað með ft eða pt, sitt á hvað, í elstu handritum. Því má segja að meginreglan hafi verið sú að rita pt, en ft hafi helst verið skrifað þar sem f var að finna í sama eða skyldum stofni, t.d. í haft af hafa eða í gifta, skylt gefa. Í fornritum er þó ekkert einhlítt í þessu fremur en nú. 

Egiptaland
Í stafsetningu þessa nafns eru tvö álitamál. Annað er hvort rita skal i eða y, hitt hvort rita skal f eða p.
     Egiptaland kemur mjög við sögu í Biblíunni, bæði í Gamla og Nýja testamentinu, og er því oft nefnt í guðrækilegum ritum á öllum tímum og fræðsluritum af ýmsu tagi. Þær heimildir, sem ég hefi athugað um rithátt nafnsins Egiptaland, eru aðallega ferns konar: íslensk fornrit, biblíuútgáfur, orðabækur og réttritunarbækur. 

Fornrit
Sem fyrr segir getur vitnisburður fornrita ráðið úrslitum í þessu máli, og verður því að hyggja vandlega að honum.
    Fyrstu óyggjandi dæmi um nafnið Egiptaland er að finna í nokkrum handritum sem eru meðal þeirra allra elstu sem varðveist hafa, nánara tiltekið frá því um 1200 eða byrjun 13. aldar. Hér má nefna íslensku hómilíubókina í Stokkhólmi, AM 645 4to (með postulasögum o.fl.) og AM 674 A 4to (Elucidarius). Í þessum þremur ritum eru samtals 12 dæmi samkvæmt orðabók Larssons (1891), öll rituð með ip
    Egiptaland er oft nefnt í Veraldar sögu, og hún er til í mörgum handritum, sumum reyndar ungum. Þar er ávallt ritað ip. Elstu brot þessa rits eru tvö skinnblöð frá því um 1200, AM 655 VIII 4to. Á öðru þeirra kemur nafnið fyrir tvisvar. Auk þess hafa verið athuguð mörg önnur íslensk fornrit þar sem fyrir koma orðin Egiptaland, Egiptar og lýsingarorðið egipskur. Hin helstu eru: Alexanders saga, Dínus saga drambláta (sá hluti sem varðveittur er í miðaldahandritum), Hauksbók, Heilagra manna sögur, Maríu saga og Postula sögur.
    Enn fremur hafa verið athuguð ýmis fróðleiksrit sem út voru gefin í Alfræði íslenskri (1-3) 1908-1918. Þar á meðal er fróðleikur úr handritinu AM 194 8vo, sem var skrifað 1387, og eru þar mörg dæmi um nafnið Egiptaland, ætíð með ip. – Líklega eru allir þessir fræðslupistlar miklu eldri en handritið, og einn þeirra er það áreiðanlega. Það er "Leiðarvísir" handa suðurgöngumönnum eftir Nikulás Bergsson, sem var ábóti á Munkaþverá í Eyjafirði frá því um 1155 til dauðadags 1159. Leiðarvísir er talinn saminn um miðja 12. öld og er e.t.v. elsta rit sem geymir nafnið Egiptaland – og raunar einnig nafnið Kípur. Hann er nú, í þessum skrifuðum orðum, að koma út í Sturlunguútgáfu Svarts á hvítu (ásamt Veraldar sögu o.fl.), í fyrsta sinn svo að aðgengilegur geti talist almenningi á Íslandi. Í þessari nýju útgáfu er fornum rithætti nafnanna ekki haldið. 
    Í öllum þeim fornu ritum, sem nú voru nefnd, er undantekningarlaust ritað i í stofninum egipt- nema í Hauksbók. Komum að henni síðar.
    Um lýsingarorðið egipskur hefir auk þessa fundist eitt dæmi fornt, eftir tilvísun í Lexicon poeticum (útg. Finns Jónssonar 1931). Það kemur fyrir í Meyjadrápu, helgikvæði frá 14. öld. Í orðabókinni er skrifað "egypzkr", en það er ekki að marka. Samkvæmt dróttkvæðaútgáfu Finns Jónssonar (Den norsk-islandske skjaldedigtning A II) er það ritað með i í drápunni: "kæran seigi ec at egipzk væri" (bls. 529). Meyjadrápa er varðveitt í handritum frá fyrri hluta 16. aldar, en ekki hefir verið athugað hvort þau gera reglubundinn greinarmun á i og y að fornum hætti.
     Stundum er í fornritum – og jafnvel yngri ritum íslenskum – notað hið latneska nafn Egiptalands, og þá beygt á latneska vísu, en um það gildir allt hið sama og um íslenska nafnið að það er yfirleitt skrifað með i og p (t.d. Egiptum, Egipto).
    En ekki er öll sagan sögð. Í þremur vesturnorrænum fornritum hafa fundist dæmi um y í þessum stofni. Þau eru: norska hómilíubókin, Stjórn og Hauksbók
    Að minnsta kosti eitt þessara rita er tvímælalaust norskt, eins og nafnið bendir til, þ.e. norska hómilíubókin. Hún er álíka gömul og sú íslenska, frá því um 1200. Þar eru ein sjö dæmi og öll með y samkvæmt orðabók Anne Holtsmark (1955) yfir elstu norsku handritin. Ekki skal hér fullyrt hvernig á þessu stendur, en í norsku var að fornu haft y í ýmsum orðum þar sem i var í íslensku, einmitt í svipuðum hljóðasamböndum og hér um ræðir. (Sjá Adolf Noreen. Altnordische Grammatik. I. 5. útg. (1970), bls. 85.) Því er ekki ósennilegt að í Noregi hafi tíðkast annar framburður á þessum orðstofni en á Íslandi, en einnig má vera að í norsku hómilíubókinni sé einungis verið að líkja eftir erlendum (latneskum) rithætti. Grikkir rituðu ufsílon til að tákna uj-hljóð í máli sínu. Slíkt hljóð var ekki til í latínu, en Rómverjar skrifuðu y í grískum tökuorðum og nöfnum sem höfðu ufsílon í grísku, t.d. í nafni Egiptalands (Aegyptus).
     Þá er að segja frá Stjórn. Svo nefnist þýðing (eða þýðingar) á upphafi Gamla testamentisins til loka 2. Konungabókar, varðveitt í íslenskum handritum frá 14. og 15. öld. Hin varðveitta gerð er talin styðjast við eldri þýðingu sem aukin hafi verið efni úr erlendum skýringarritum, einkum fyrsti hlutinn (sbr. Jakob Benediktsson í Hugtökum og heitum í bókmenntafræði (1983), bls. 29). Löngum var Stjórn talin norsk og upptök þýðingarinnar jafnvel eldri en ritöld á Íslandi. Nú leyfa menn sér að efast meira um það en áður var. Handritin eru a.m.k. íslensk þótt þar gæti norskra áhrifa. Ekki var ætlunin að blanda þjóðernismálum Stjórnar inn í þessa stafsetningarumræðu, en í Stjórn er fjöldi dæma um orðstofninn egipt- og ástæða til að hyggja vel að rithætti þeirra.
    Aðalhandrit Stjórnar eru þrjú, venjulega nefnd A, B og C. A (AM 226 fol.) og B (AM 227 fol.) eru frá miðbiki 14. aldar nema fáein blöð sem eru yngri. En C (AM 228 fol.) er frá upphafi aldarinnar að tali fræðimanna, og ber mest á norskum einkennum í því handriti. Texti C hefst á Jósúabók. 
    Með því að skoða útgáfu Ungers (1862) og ljósprentuðu útgáfuna af B frá 1956 mátti fá sæmilega hugmynd um ritháttinn í aðalhandritunum þremur. Athugunin var ekki nákvæm eða tæmandi, en eftir henni að dæma er i einrátt í A og B, en í C er ýmist ritað i eða y. Þetta þarf ekki að merkja annað en það að norskra áhrifa eða ummerkja gæti að þessu leyti í C, en ekki í hinum handritunum tveimur, hvernig sem á því stendur. Það skiptir ekki máli hér og verður ekki farið lengra út í þá sálma.
    Ávallt er ritað p, en aldrei f í þeim fjölmörgu dæmum sem fyrir urðu.
    Þá er aðeins eftir að gera grein fyrir Hauksbók. Hún er talin vera skrifuð skömmu eftir 1300, kennd við Hauk lögmann Erlendsson (d. 1334), sem lét taka hana saman og skrifaði að hluta til sjálfur. Hann var um skeið lögmaður á Íslandi, en er kominn til Noregs 1299 þar sem hann gerðist síðar embættismaður og dvaldist lengstum eftir það. Í Hauksbók er mörgum ritum safnað saman og Egiptalands getið í þremur þeirra, alls 12 sinnum. Samkvæmt útgáfu Finns Jónssonar (Khöfn 1892-96) eru þau þessi: Heimslýsing og helgifræði (7), Breta sögur (1) og Elucidarius (4). 
    Hauksbók hefir í aðalatriðum þrennan rithátt. Algengastur er "Egiftaland". Um hann eru 7 dæmi, 6 úr Heimslýsingu og 1 úr Elucidarius. "Egiptaland" er skrifað þrisvar, sitt dæmið úr hverju riti. Loks eru tvö dæmi um "Egyptaland", bæði úr Elucidarius. 
    Talið er að Norðmaður (eða Færeyingur) hafi skrifað "Heimslýsingu og helgifræði". Breta sögur skrifaði Haukur lögmaður sjálfur, en skriftin hefir víða verið skýrð upp á 17. öld, þar á meðal í "egiptalandz", svo að dæmið er ótraustur vitnisburður um rithátt Hauks, að sögn Stefáns Karlssonar handritafræðings á Árnastofnun í Reykjavík. Í Elucidarius (AM 675 4to) – sem hefir alla rithættina þrjá – er stafsetning mjög óregluleg, og þar ægir saman íslenskum og norskum rithætti. Finnur Jónsson gat þess til að Norðmaður hefði skrifað textann eftir íslensku forriti. En sérfræðingar á Árnastofnun, Stefán Karlsson og Kaaren Grimstad, hallast fremur að því að hann sé skrifaður af Íslendingi, sem í sumum greinum hafi líkt eftir norskum ritvenjum, og ef til vill verið lesblindur.

Helstu atriði um fornan rithátt
Athugun á íslenskum fornritum hefir auðvitað ekki verið tæmandi, og ég hefi orðið að styðjast meira við prentaðar útgáfur en handrit. Ég vona þó að sæmilega traust yfirlit hafi fengist, og vert er að hafa í huga að þau dæmi, sem athuguð hafa verið, skipta tugum ef ekki hundruðum.
    Ritháttur fornrita er í aðalatriðum þrenns konar: "Egiptaland", "Egyptaland", "Egiftaland". 
    Sá fyrstnefndi er langalgengastur og um hann eru líka elst dæmi í íslenskum ritum. Fyrir 1300 hafa ekki fundist íslensk dæmi um annað.
    Annar rithátturinn, "Egyptaland", er norskur (norska hómilíubókin). Í íslenskum bókum er hann aldrei einráður, en honum bregður fyrir í tveimur handritum (AM 228 fol. og Hauksbók) þar sem vitað er, af öðrum ástæðum, að sterkra norskra áhrifa gætir.
    Þriðji kosturinn, að skrifa f en ekki p, kemur ekki til sögunnar fyrr en um eða upp úr 1300.
    Í langflestum dæmunum, sem athuguð voru í fornritum, var ritað p en ekki f. Einu dæmin, sem höfðu ekki p, voru úr Hauksbók og líklega norsk. Þetta er allt í samræmi við venju og verður ekkert af því ráðið um upprunalegan framburð stofnsins egipt- í íslensku, ekkert um það hvort nú skuli rita "Egiftaland" eða "Egiptaland". Hvort tveggja samræmist þeim framburði sem hér tíðkaðist á ritunartíma elstu handrita sem varðveist hafa.
    Lýsingarorðið egipskr hjálpar varla heldur. Þar er víst undantekningarlaust ritað p í þeim dæmum sem fyrir urðu, en þau eru öll í samböndunum ps, pts, pz eða ptz, þar sem p gæti táknað hvort hljóðið sem væri, f eða p. Ekki verður séð á heimildum að gerður hafi verið greinarmunur á ft og pt í íslenskum framburði. En hafi svo verið einhvern tímann og nafnið Egiptaland þá verið komið til sögunnar, er öllu sennilegra að þar hafi verið borið fram pt en ft úr því að p var ritað í latneska nafninu. Meira verður ekki sagt. 

Biblíuútgáfur
Fyrir forvitni sakir verður nú einnig hugað að rithætti eftir siðaskipti þó að hann skipti auðvitað minna máli. En ekki er unnt að ná yfir allt. Hins vegar má fræðast nokkuð um þróun ritháttarins með því að kanna útgáfur Biblíunnar – en jafnvel þar verður að velja úr. Litið verður á fáein þeirra dæma, sem fyrir koma í 2. Mósebók, 11.-14. kapítula, og í 7. kapítula Postulasögunnar. 
    Göngum á röðina og byrjum á Guðbrandsbiblíu (1584). Þar er ekki annað að finna en hinn forna rithátt, "Egiptaland", "Egiptar" og "egipskur" eða "egiptskur" (sbr. Oskar Bandle. Die Sprache der Guðbrandsbiblía (1956), bls. 176, 319 o.v.). Í Þorláksbiblíu (1637-44) er sama ritvenja ríkjandi í Gamla testamentinu, en y bregður fyrir í þessum stofni. Í Nýja testamentinu snýst dæmið við. Þessu valda erlend áhrif, enda eru Íslendingar þá hættir að gera mun á i og y í framburði.
    Því má skjóta hér inn í að Hallgrímur Pétursson notar latneska mynd nafnsins á einum stað í Passíusálmunum (22. sálmi, 3. versi) og skrifar "Egipto" í eiginhandarriti frá 1659 (JS 337 4to), sbr. einnig hina stafréttu útgáfu Finns Jónssonar (1924). Í ýmsum tiltækum útgáfum hefir þessu hins vegar verið breytt í "Egyptó" (1858, 1907, 1950, 1961 – og eflaust víðar). 
    Í Steinsbiblíu (1728-34) er jafnan ritað "Ægypt-" að útlendum hætti, og y verður síðan einrátt í biblíuútgáfum á 18. og 19. öld.
    Á árunum 1897-1907 var ráðist í nýja þýðingu úr frummálunum. Þá var aftur horfið að hinum forna rithætti, "Egiptaland" o.s.frv. Þýðingin var prentuð 1908 og síðan endurskoðuð 1912. Þetta er sú biblíuútgáfa sem flestir núlifandi Íslendingar þekkja, enda prentuð upp hvað eftir annað allt þar til nýjasta útgáfan kom 1981. En þá er blaðinu aftur snúið við og nú farið að rita "Egyptaland". 

Orðabækur
Þessu næst verður hugað að rithætti helstu orðabóka. Í stuttu máli sagt hafa orðabækur fornmálsins yfirleitt ip eins og við er að búast. Fritzner (1883-1896) ritar "egiptaland", "egiptalandsmaðr" og "egiptzkr" eða "egipskr". Guðbrandur Vigfússon (1874) hefir "Egipzkr" og "Egiptaland" og Heggstad (1930) "Egiptaland", "egiptalandsmaðr" og "egipzkr". Í nýja viðbætinum við orðabók Fritzners (1972) er þó tekin upp ritmyndin "egyptaland" úr norsku hómilíubókinni og vísað til hennar. Í Supplementum Jóns Þorkelssonar (II 1879-1885 og III 1890-1894) eru sömu flettiorð með ip og dæmi sýnd, bæði úr fornritum og samtímaritum. Lexicon poeticum (1931) hefir einungis lýsingarorðið "egypzkr" (sem er ekki í frumútgáfu Sveinbjarnar Egilssonar 1860), en sem fyrr sagði er sá ritháttur ekki í samræmi við heimild orðabókarinnar.
    Orðabækur yfir yngra mál eru reikulli í ráði. Orðabók Sigfúsar Blöndals (1920-24) hefir "Egiptaland" eins og hinar, en í viðbætinum frá 1924 er þeirri athugasemd aukið við að venjulega sé skrifað "egypskur", "Egypta-" o.s.frv. Í Orðabók Menningarsjóðs (1. útg. 1963) er lýsingarorðið "egifzkur" og í skýringu við það er ritað "Egiftaland", en bókin hefir einnig flettiorðið "egypzkur" og vísar þaðan á hið fyrra. Í 2. útg. 1983 eru flettiorðin "Egiftamyrkur", "egifskur" og "Egifti" og nafnið "Egiftaland" í skýringum með tveimur hinum síðarnefndu. Loks er "egypskur" líkt og áður sérstakt flettiorð og vísað þaðan á "egifskur". Ritstjóri Orðabókar Menningarsjóðs, Árni Böðvarsson, hefir nú einnig sent frá sér bók, sem nefnist Orðalykill (1987). Í síðasta hlutanum, "Landafræðiheitum", stendur "Egiftaland eða Egyptaland" og þar undir "Egifti eða Egypti", "egifskur eða egypskur".
    Eftirtekt vekur að ritháttinn "Egyptaland", sem nú er eflaust mest tíðkaður, er ekki að finna í neinni af aðalorðabókunum um íslenskt mál nema sem athugasemd í viðbæti í einni þeirra.

Réttritunarbækur
Hvað leggja þá stafsetningarorðabækur til mála? Hér verður það ekki rakið til þrautar, ekki kannaðar allar útgáfur allra slíkra bóka, en gripið verður niður í þeim helstu.
    Fyrst má geta þess að Ritreglur eftir Valdimar Ásmundsson birtust í 5. útgáfu endursaminni 1899. Í orðasafni aftast í kverinu er tekið upp nafnið Egyptaland, svo ritað, en í 6. útgáfu 1907 hefir því verið breytt í Egiptaland.
    Aldamótaárið 1900 kom út Íslenzk stafsetningarorðbók [svo] eftir Björn Jónsson. Þar er ritað "Egiptaland" og "egipzkur", en í svigum stendur "Egyftaland" og kross við. Hann er sagður merkja "rangt eða miður rétt" (bls. VIII).
     Orðakver einkum til leiðbeiningar um rjettritun eftir Finn Jónsson kom út í Kaupmannahöfn 1914. Þar segir (bls. 23): "Egiptaland, óþarft að rita hjer y (sbr. kirkja, stíll)". Þessu til skýringar skal tekið fram að orðið kirkja á rætur að rekja til grísks stofns með ufsíloni, og eitt sinn var talið að svo væri einnig um orðið stíll. Það er komið úr lat. stilus, sem var talið sama orð og gr. stylos. Þess vegna er ritað y í sumum Vesturlandamálum, t.d. e. style. Nú eru fræðimenn ekki lengur trúaðir á skyldleikann við þetta gríska orð.
    Stjórnarráðið gaf út reglur um íslenska stafsetningu 1918, fyrstu opinberu reglurnar af því tagi. Stafsetningarorðabók Björns Jónssonar birtist í fjórðu útgáfu 1921. Höfundur var þá fallinn frá, en Jakob Jóh. Smári var fenginn til að búa bókina til prentunar í samræmi við fyrirskipun stjórnarráðsins. Bókinni er skipt í þrjá hluta. Í þeim fyrsta ("Samnöfn og hugtaksorð") er lýsingarorðið "egipskur", en í öðrum hluta ("Mannaheiti, örnefni og önnur sjernöfn") stendur: "Egiftaland (Egyptaland) egifskur".
    Helstu stafsetningarorðabækur síðustu áratuga hafa "Egyptaland" eingöngu, þ.e. orðabækur Freysteins Gunnarssonar (1.-3. útg., 1930-1945), Halldórs Halldórssonar (1.-3. útg., 1947-1980) og Árna Þórðarsonar og Gunnars Guðmundssonar (1.-6. útg., 1957-1981).
    Eftir þessu yfirliti að dæma er umtalsverð óvissa um rithátt, að því er varðar i og y, ekki ýkja gömul. 

Niðurstaða
Setjum okkur nú í þá stöðu að þurfa að gera upp á milli þeirra fjögurra kosta sem nefndir voru í upphafi og velja aðeins einn þeirra til að mæla með í íslenskri réttritun. Líklega geta allir orðið sammála um að "Egyftaland" komi síst til greina, en færa megi sæmileg rök fyrir hverjum hinna sem er. En hver er þá bestur eða skástur? Hverjum er erfiðast að hafna?
    "Egiptaland" er sá ritháttur sem á sér lengsta sögu í íslensku. Hann er tíðkaður allt frá upphafi og fram á okkar daga og er í fullu samræmi við meginreglur íslenskrar réttritunar. 
    "Egiftaland" er gamall ritháttur (norskur?) og lægi beinast við nú ef nafnið ætti sér enga sögu í málinu. Af hljóðsögulegum ástæðum kemur hann vel til greina eins og "Egiptaland", en sterkari hefð styður p en f í þessu orði.
    "Egyptaland" er norskur ritháttur á miðöldum, líklega studdur norskum framburði. Í íslenskum miðaldahandritum bregður honum aðeins fyrir þar sem sterkra norskra áhrifa gætir. Ekkert bendir til að Íslendingar hafi borið fram uj-hljóð í þessu nafni. Aftur er til hans gripið vegna erlendra áhrifa eftir 1600, þegar Íslendingar eru hættir að gera greinarmun á y og i í framburði, og hann hefir smám saman unnið á – einkum á þessari öld – undir áhrifum að utan. Nú er hann eflaust orðinn algengasti rithátturinn, og það væri hið eina sem gæti réttlætt hann. En eins og fram hefir komið styðst hann ekki við hljóðsöguleg rök og brýtur því í bága við meginreglu í íslenskri réttritun. Gegn honum stendur órofa íslensk hefð í átta aldir, að rita i í þessu nafni. Hví skyldi hún eiga að lúta í lægra haldi? 
    Að öllu athuguðu tel ég að "Egiptaland" eigi að vera hinn opinberi íslenski ritháttur, og þjóðarheiti og lýsingarorð eftir því, "Egiptar" og "egipskur". 

Kípur
Í þessu nafni er álitamálið aðeins það hvort rita skal í eða ý. Þó er rétt að hafa kynferði og beygingu líka í huga.
    Kípur hefir verið miklu sjaldnar til umræðu í íslenskum ritum en Egiptaland. Munar mest um það að hún er sjaldan nefnd í Biblíunni nema í Postulasögunni sem var ekki þýdd á íslensku fyrr en á 16. öld. Hennar er þó getið nokkrum sinnum í fornritum, m.a.s. í einu af elstu íslensku handritunum sem minnst var á hér á undan, AM 645 4to. Þar eru tvö dæmi, bæði með i. Hið fyrra er í þessu sambandi (bls. 40-41 í útg. Larssons 1885): "í ey þeiri, es Ciprus heitir, ok Norðmenn kalla Kípr". Stafsetningin er hér samræmd. Handritið hefir "kipr" sem samsvarar "Kípur" nú. Heitið Norðmenn er á þessum tíma haft um fólk í Noregi og þeim löndum sem þaðan byggðust á miðöldum, þar á meðal á Íslandi.
    Kípur er tvívegis nefnd í Heimskringlu (í Magnússona sögu). Nokkur vafi leikur á um fyrra dæmið því að það er ritað "Kapr" í aðalhandritinu og í Fagurskinnu, en önnur handrit hafa "Kípr" (skv. útg. Bjarna Aðalbjarnarsonar). Síðara dæmið er ótvíræðara. Þar er sagt frá því er Sigurður konungur Jórsalafari hélt til skipa sinna og bjóst brott af Jórsalalandi. "Þeir sigldu norðr til eyjar þeirar, er Kípr heitir", segir svo (Hkr. III 252).
    Þótt Kípur sé ekki nefnd í miðaldaþýðingum úr Biblíunni er hennar getið í Stjórn sem er full af alls kyns fróðleik með ritningartextanum svo sem fyrr var á minnst. Þar stendur meðal annars þetta (bls. 88): "Cyprus, hverja er vér köllum Kípur og öðru nafni heitir Pafus, var forðum ein fræg ey af sínum ríkdómi. Þar var sú list fyrst fundin að smíða af kopar slíkt er mönnum líkaði, því að hann er þar í nóg". Stafsetningin er hér samræmd. Samkvæmt útgáfu Ungers er skrifað "Cipr" í A, en "Kipr" í B. Hvort tveggja samsvarar "Kípur" að okkar rithætti.
    Þetta sýnir glögglega, eins og dæmið úr AM 645 4to, að norrænir menn hafa talið sig hafa sitt eigið nafn á eynni, enda sést hér á eftir að Íslendingar hafa fyllilega lagað hinn erlenda stofn að kröfum sinnar tungu, bæði að framburði og beygingu. Þegar á 12. öld a.m.k. er Kípr fullgilt íslenskt orð eins og prestr og kirkja.
    Kípur er nefnd á einum stað í Hauksbók (AM 544 4to), í kafla um náttúru steina, og nafnið ritað "Kípr" í útgáfu Finns Jónssonar. Það kemur heim við hina ljósprentuðu útgáfu handritsins (í Manuscripta Islandica. 5.) 1960.
    Í handritinu AM 194 8vo, sem fyrr var getið (2.1.0), er Kípur nefnd nokkrum sinnum, þar á meðal í Leiðarvísi Nikulásar ábóta, og alltaf skrifað i í handritinu, aldrei y. Dæmin eru þó ekki síður merkileg fyrir það að þau sýna beygingu orðsins að fornu og kynferði þess. Nú á dögum hefir komist á sú tíska að hafa nafnið óbeygjanlegt eins og það væri ekki íslenska. En ábótinn á Munkaþverá fór með það eins og beinast lá við og beygði það á sama hátt og lifr, vigr o.fl.: "Þá er tveggja dœgra haf til Kíprar", segir hann.
    Kípr er meðal eyjarheita í fornum þulum. Þaðan er nafnið tekið upp í Lexicon poeticum 1860. Þar er þess getið að orðið sé kvenkyns, eignarfallið Kíprar og þágufall Kípr. Finnur Jónsson heldur þeim rithætti í sinni útgáfu og staðfestir eignarfallið. Þetta er í samræmi við hinar fornu heimildir. En höfundur orðabókarinnar, Sveinbjörn Egilsson, hafði annan hátt á. Hann réð ekki hinni prentuðu útgáfu því að hann féll frá (1852) rétt áður en undirbúningur hennar hófst. Í handriti Sveinbjarnar, Lbs. 416 4to, er nafnið skrifað "Kýpr" og sagt vera hvorugkyns. Þannig hafði hann það einnig í Hómersþýðingum sínum eða nefndi eyna "Kýprey". Þó hefir hann verið í einhverjum beyglum með þetta heiti eins og fleiri nöfn sem hann var sífellt að þreifa sig áfram með. Það sést á því að eignarfallið hefir hann ýmist Kýpurs (Od. 4) eða Kýpur (Il. 11) auk Kýpreyjar (Od. 17), en þágufallið er haft Kýpur (Od. 8) eða þá Kýprey (Od. 17). Nafnið fellur sem sé ekki að neinni hvorugkynsbeygingu innlendra orða í íslensku.
    Rétt er að taka það fram, svo að ekki valdi misskilningi, að eina dæmið úr Ilíonskviðu er í frumútgáfu hennar 1855 stafsett "Kípur" (bls. 252) og þannig einnig í útgáfu Menningarsjóðs 1949 (bls. 205), en í handriti Sveinbjarnar (Lbs. 431 4to) stendur "Kýpur". Ritháttur Sveinbjarnar er auðvitað í samræmi við gríska nafnið Kypros (umritað svo með latínustöfum).
    Allur þessi ruglingur er sprottinn af því að þráðurinn frá miðöldum hefir slitnað. Í Postulasögunni er Kípur nefnd 8 sinnum með nafni. Það nafn tekur á sig margvíslegar myndir í biblíuútgáfum. Í þeim elstu, Guðbrandsbiblíu (sem fylgir Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar 1540) og Þorláksbiblíu, eru fyrstu stafirnir Cip- og í næstu þremur útgáfum
Cyp-. Beyging er hálflatnesk, ruglingsleg eða engin. Í Viðeyjarbiblíu 1841, sem kennd er við Sveinbjörn Egilsson öðrum fremur, sést fyrst myndin Kýpur, og m.a.s. Kípur, en einnig Kýprus og Sýprus. Tvær næstu útgáfur fara líkt að. En samræmi kemst ekki á rithátt í Biblíunni fyrr en í útgáfunum 1908 og 1912. Þar er alltaf Kípur og nafnið haft óbeygt, einnig á þremur stöðum í Gamla testamentinu þar sem annað nafn er notað í eldri útgáfum. Í nýju útgáfunni (1981) er það hins vegar ávallt Kýpur nema á einum stað (Kýprus í Jes. 23:12).
    Fyrir þessum nýjasta rithætti eru engin rök í íslenskri hljóðsögu. 

Lokaorð
Niðurstaða þessara hugleiðinga verður þá í stuttu máli eitthvað á þessa leið: Sama máli gegnir um Kípur og Egiptaland. Í hinum grísku heitum beggja landa er ufsílon, en forn ritháttur sýnir, að Íslendingar hafa ekki borið fram uj-hljóð í nöfnum þeirra. Rétt er því að skrifa Egiptaland og Kípur.