Þorsteinn Sæmundsson

Eftirmáli

Síðan greinin "Skyggnst í sögu almanaksins" birtist árið 1969 hafa ýmsar breytingar orðið sem snerta bæði almanökin sem þarna er fjallað um.

Þeir Trausti Einarsson og Þorsteinn Sæmundsson voru umsjónarmenn almanaksins fram til 1969, en þá lét Trausti af því starfi. Þorsteinn sá síðan einn um almanakið þar til 2011, að Gunnlaugur Björnsson gekk liðs við hann um útgáfuna.

Hvað Íslandsalmanakið varðar má geta þess að árið 1971 voru felld niður fjölmörg dýrlinganöfn sem lengi höfðu staðið í almanakinu án gildrar ástæðu. 

Árið 1970 var ritið stækkað úr 44 bls. í 48. Árið 1974 var það stækkað í 56 bls. og árið eftir í 64 bls. Árið 1976 hafði blaðsíðunum fækkað aftur í 56, en næsta ár var ritið komið í 80 bls. Þá hafði m.a. verið bætt inn síðum til að unnt væri að rita minnispunkta við hvern dag. Árið 1980 voru blaðsíðurnar orðnar 88, og frá og með 1986 hefur ritið verið 96 bls. að stærð.

Stærð upplags hefur einnig tekið breytingum. Þegar prentun almanaksins fluttist til landsins árið 1923 var upplagið sagt 19 þúsund, en líklega hafa þá verið talin með þau eintök sem fylgdu almanaki Þjóðvinafélagsins.  Árið 1967 var upplag Íslandsalmanaksins 10 þúsund eintök en almanak Þjóðvinafélagsins taldi 5 þúsund. Síðasta ár sem upplagstölur beggja almanaka eru þekktar var árið 1984. Þá var samanlagt upplag 10 þúsund. Síðan hefur upplagið dregist verulega saman.

Íslandsalmanakið var í öndverðu tengt háskólanum í Kaupmannahöfn, sem þá var háskóli Íslendinga. Útreikningar almanaksins voru í höndum stjörnufræðings við skólann, þess sama og sá um útreikninga fyrir danska almanakið. Alls urðu þeir fimm sem önnuðust þetta verk í þau 86 ár sem almanakið kom út í Kaupmannahöfn.

Fyrstu 50 árin sem Íslandsalmanakið var gefið út hér á landi var útgáfan falin Þjóðvinafélaginu með samningi við Háskóla Íslands sem þannig framseldi einkaleyfi sitt til almanaksútgáfu. Árið 1972 verða þáttaskil, því að þá tekur háskólinn útgáfuna að sér og lýsir almanakið formlega Almanak Háskólans. Fjárhagsleg umsjón almanaksins var þá falin Sigurði P. Gíslasyni, umsjónarmanni sjóða háskólans. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins sá um dreifingu almanaksins til bóksala í  fram til 1984, en þá tók starfsfólk Raunvísindastofnunar Háskólans, þau Þorgerður Sigurgeirsdóttir og Pálmi Ingólfsson, við því verki án þess að greiðsla kæmi fyrir. Árið 2002 ákvað þáverandi háskólaritari að allt reikningshald almanaksins skyldi fært undir sameiginlegt bókhald háskólans. Síðan hefur dreifing og sala verið í höndum Háskólaútgáfunnar.

Síðan 1973 hefur Svanberg K. Jakobsson aðstoðað við gerð uppdrátta sem birst hafa í almanakinu. Svanberg tók einnig að sér aðstoð við prófarkalestur fram til ársins 1993, en  þá tók Máni Þorsteinsson við því starfi.

Árið 1998 var komið á fót vefsíðu um efni sem tengist almanakinu (www.almanak.hi.is). Vefsíða þessi hefur verið í umsjá Þorsteins Sæmundssonar. Frá árinu 2005 hefur verið hægt að sækja almanakið sjálft á vefinn í rafrænni mynd (á vefsíðuna www.almanak.is).

Á almanaki Þjóðvinafélagsins hefur orðið sú breyting á síðari árum að fróðleiksgreinar og sögur eru hættar að birtast, en eftir stendur árbókin, fróðleg sem fyrr. Ólafur Hansson sá um árbókina til 1982. Þá tók Heimir Þorleifsson við verkinu og annaðist það til ársins 2013. Það ár kom Jón Árni Friðjónsson til liðs við hann og hefur séð um árbókina síðan.

Þótt tekið sé fram hverjir hafi séð um árbókina er ekki jafnljóst hver hefur verið umsjónarmaður almanaksins sjálfs á hverjum tíma. Frá 1967 til 1978 var Þorsteinn Sæmundsson skráður ritstjóri, en hann sá þá jafnframt um Almanak Háskólans. Frá 1979 til 1984 annaðist Finnbogi Guðmundsson umsjónina. Árið 1985 tók Jóhannes Halldórsson við þessu starfi og sinnti því til ársins 2012. Þá var Ólafur Ásgeirsson forseti Þjóðvinafélagsins og mun hann hafa annast um almanakið þar til hann lést árið 2014. Að líkindum hefur Jón Árni Friðjónsson þá tekið við, þótt ekki sé beinlínis tekið fram í almanakinu að hann sé ritstjórinn fyrr en 2017.

Þessi hafa verið forsetar Þjóðvinafélagsins á síðari árum:

Þorkell Jóhannesson 1958-1960
Trausti Einarsson 1960-1962
Ármann Snævarr 1962-1966
Finnbogi Guðmundsson 1967-1984
Kristján Karlsson 1984-1985
Bjarni Vilhjálmsson 1985-1988
Jóhannes Halldórsson 1988-1999
Ólafur Ásgeirsson 1999-2014
Guðrún Kvaran 2014 -

Listi yfir alla stjórnarmenn á þessum árum er hér.

Árin 1968 til 1970 voru bæði almanökin prentuð í Lithoprent, en síðan í Ísafoldarprentsmiðju fram til 1978. Frá 1979 til 2015 fór prentunin fram í Prentsmiðjunni Odda, en Litlaprent sá um prentun almanakanna fyrir 2016. Oddi sá aftur um prentunina 2017. Almanak Háskólans fyrir 2018 var prentað í Odda, en almanak Þjóðvinafélagsins í Litlaprenti. Frá 2019 hafa almanökin verið prentuð í Litlaprenti.

Einkaleyfi Háskóla Íslands til almanaksútgáfu var fellt niður árið 2008. Því einkaleyfi hafði reyndar aldrei verið beitt til að koma í veg fyrir útgáfu annarra almanaka eða dagbóka, sem stöðugt hefur fjölgað með árunum.


Kápusaga

Almanak Háskólans  (Íslandsalmanakið) var kápulaust allt fram til ársins 1967. Það ár hafði almanakið stækkað í 40 síður (hafði lengst af verið 24 síður) og þótti við hæfi að slá utan um það kápu. Vegna misskilnings í prentsmiðju urðu til tvær útgáfur af fyrstu kápunni.  Í fyrri útgáfunni var kápan nákvæmlega eins og titilblaðið, sem hafði verið með óbreyttu sniði í langa hríð. Sú útgáfa var aðeins prentuð í litlu upplagi og mun því sjaldséð. Árið 1974 varð sú breyting á kápunni að Háskóla Íslands var getið sem útgefanda. Árið 1978 var merki Háskólans bætt á kápuna. Engin breyting hefur orðið á útliti kápunnar eftir það. Því má segja að fjórar mismunandi kápur hafi prýtt almanakið, þar af ein í mjög litlu upplagi.

Öðru máli gegnir um kápuna á almanaki Þjóðvinafélagsins. Af henni eru til einar 29 gerðir, ef allar breytingar í letri eru taldar með. Sumar þeirra breytinga eru eftirtektarverðar og kemur stafsetning þar við sögu. Í merkinu sem birtist á fyrstu eintökum Þjóðvinafélagsins er orðið "íslenzka" ritað með z eins og þá tíðkaðist. Stafurinn z var felldur niður úr almennum texta með ákvörðun Menntamálaráðuneytis árið 1974. Þeirrar breytingar gætti strax á forsíðu almanaks Þjóðvinafélagsins 1975 þótt z héldist í merkinu gamla.  Árið 1979 læðist z aftur inn í nafn almanaksins, líklega vegna þess að þáverandi ritstjóri hefur viljað hafa samræmi milli textans og merkisins. Þannig standa mál fram til ársins 2000, að z er aftur felld niður, samhliða víðtækari breytingum.

Næsta mál varðar stafinn é. Hann var í upphafi ritaður með bakfallsbroddi (è) á kápunni og stóð svo fram til 1882, að farið var að rita je í staðinn. Sá háttur hélst fram til 1899, en þá var nútímalegt é tekið upp. Bakfallsbroddurinn mun hafa verið ein af stafsetningarreglum Rasmusar Rasks, en je verið í reglum Halldórs Kr. Friðrikssonar að því er segir á Vísindavefnum, með Stofnun Árna Magnússonar sem heimild.

Fálkamerki Þjóðvinafélagsins var á forsíðunni frá 1875 til 1881. Þá féll það niður í eitt ár, en var svo tekið upp aftur, og stóð svo fram til 1895. Þá kemur í staðinn annað merki þar sem stafirnir Þ, V, F eru samofnir í miðju, en umhverfis er orðtækið "Margar hendur vinna létt verk". Næsta ár birtist gamla merkið aftur. Nýja merkið lét sjá sig þarnæsta ár (1897). Síðan hefur það ekki birst.
 
Árið 1901 prýddi forsíðuna mynd sem átti að tákna aldamótin. Svo tók fálkamerkið aftur við. Árið 1929 var merkið minnkað verulega, og árið 1950 birtist í staðinn fátækleg eftirlíking af hinu upprunalega merki. Ýmislegt bendir til að setningarkubburinn hafi týnst. Hann fannst við leit árið 1966, og komst rétta merkið aftur á forsíðu almanaksins 1967. Árið 2000 var merkinu breytt þannig að drættir sem verið höfðu ljósir urðu dökkir og öfugt. Hélst sú tilhögun fram á síðasta ár (2019).  
 

Kápulitur hefur verið með ýmsu móti. Almanak Háskólans 1968 bar rauða kápu. Það ár var hlaupár, og upp frá því var rauði liturinn látinn fylgja hlaupárum. Árin 1984-1987 var litaröðin rautt-gult-grænt-blátt. Þeirri regnbogaröð hefur verið haldið síðan. Fyrst eftir að Almanak Háskólans fékk kápu (1967) var kápan á almanaki Þjóðvinafélagsins höfð í sama lit. Þetta breyttist árið 1992. Síðan hafa litirnir verið ólíkir.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af mismunandi forsíðugerðum almanakanna. Myndir af elstu gerðum Íslandsalmanaks fylgdu grein Þorgerðar Sigurgeirsdóttur hér að ofan.

Almanak Háskólans (Íslandsalmanakið):

1967, fyrri gerð
1967 (seinni gerð) - 1973
1974 - 1977
1978 -

Almanak Þjóðvinafélagsins:

1875 - 1880
1881
1882
1883 - 1891
1892 - 1894
1895
1896
1897
1898
1899 - 1900
1901
1902
1903 - 1905
1906
1907 - 1913
1914
1915 - 1921
1922 - 1928
1929 - 1935
1936 - 1940
1941 - 1950
1951 - 1965
1966
1967
1968 - 1974
1975 - 1978
1979 - 1992
1993 - 1999
2000 -


Skyld almanök

Fyrirmynd Íslandsalmanaksins var danska almanakið (Københavns Universitets Almanak, þ.e. almanak Kaupmannahafnarháskóla). Það almanak á sér sögu sem rekja má allt til þess tíma þegar háskólinn í Kaupmannahöfn var stofnaður, árið 1479. Þá þegar var háskólanum falið að gefa út almanak sem komið hefur út óslitið í meira en fjórar aldir, hugsanlega meira en fimm. Elsta varðveitta eintakið er frá árinu 1549. Eftir að stjörnuturn háskólans (Sívaliturn) var reistur árið 1637 prýddi mynd af honum forsíðu almanaksins, en þegar ný stjörnustöð var tekin í notkun á Østervold árið 1861 var forsíðumyndinni breytt hefur síðan sýnt þá stjörnustöð, þótt stöðin hafi verið lögð niður um miðja síðustu öld og starfsemin flutt lengra frá Kaupmannahöfn. 

 


Íslendingar eru ekki þeir einu sem hafa tekið mið af danska almanakinu. Færeyska almanakið er afar svipað eins og meðfylgjandi mynd  ber með sér.

 


Áður en Íslandsalmanakið kom til sögunnar höfðu framtaksamir menn samið almanök til eigin nota og haft þá  danska almanakið til hliðsjónar. Hér fylgir dæmi um eitt slíkt fyrir árið 1835. Það er í mjög litlu broti, 5x17 cm, handskrifað. Sá sem það gerði hélt því áfram í mörg ár eftir að Íslandsalmanakið var fáanlegt. Eins og sjá má hefur eigandinn ritað nafn sitt og aldur á almanakið: Gísli Árnason, 31 árs.
 

 


Þjóðvinafélagið var ekki eitt um það að gefa út almanak þar sem fróðleiksgreinum var bætt við Íslandsalmanakið. Hið sama gerðu þeir Jón Ólafsson og Steingrímur Thorsteinsson árið 1884 og kölluðu ritið "Almanak fyrir hvern mann". Í því voru greinar um Eirík Magnússon, Charles Darwin og John Stuart Mill ásamt fleira efni. Ekki varð þó framhald á útgáfunni.

Íslendingar í Vesturheimi sáu ástæðu til að gefa út eigið almanak. Árið 1895 kom út almanak í Winnipeg. Útgefandi  var Ólafur S. Thorgeirsson. Fyrsti árgangurinn minnti á Íslandsalmanakið, en síðar bættist fleira efni við svo að ritið tók að líkjast almanaki Þjóðvinafélagsins. Almanak þetta kom út í sextíu ár, fram til 1954. Á forsíðu stendur að það sé reiknað eftir afstöðu Winnipeg, og er þá átt við  tímasetningar eins og kvartilaskipti tungls, sólarupprás og sólsetur. Einhver mistök virðast hafa orðið í útreikningunum fyrsta árið, en úr því rættist fljótlega.
 

Þ.S. 21.5. 2002. Síðast breytt 6.3. 2021.