Dularfull geislun frá sól

   Á síðustu árum hafa stjörnufræðingar orðið varir við óvænta geislun frá sól. Þetta eru svonefndir gammageislar, háorkugeislar sem hafa mjög stutta bylgjulengd og háa tíðni, langt fyrir handan sýnilegt ljós og röntgengeisla. Gammageislar frá sól mældust fyrst árið 2008 með svonefndum EGRET sjónauka (Energetic Gamma Ray Experiment Telescope) um borð í Compton gervitungli bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA.  Sama ár var öðrum og fullkomnari gamma-sjónauka skotið á loft í gervitungli. Sá hlaut nafnið Fermi sjónaukinn og gat greint geislun á orkubilinu 8000 til 300 milljarða elektrónuvolta (8 keV til 300 GeV). Til samanburðar má nefna að sýnilegir ljósgeislar bera orkuna 2-3 elektrónuvolt (2-3 eV).  Gamma geislar verða til í iðrum sólar, en ættu ekki að komast út fyrir yfirborð hennar. Hins vegar berast stöðugt orkumiklar agnir utan úr geimnum, svonefndir geimgeislar, og var talið líklegt að þeir yllu gammageislun þegar þeir rækjust á sólina, nánar tiltekið segulsviðið í kórónu sólar. Nýjustu mælingar benda þó til þess að sú skýring dragi skammt. Gammageislun frá sól er margfalt meiri, allt upp í 20-falt meiri, en búast mætti við eftir fræðilegum útreikningum. Ekki nóg með það; í orkurófinu er óskiljanlegt bil þar sem gammageisla vantar.  Fróðlegt verður að fylgjast með áframhaldandi rannsóknum á þessari dularfullu geislun frá sólinni.


Þ.S. 9. júlí 2022.
 

Almanak Háskólans