Daufar stjörnur í grennd við sólkerfið


   Árið 2013 birtist grein í tímaritinu Astrophysical Journal þar sem bandaríski stjörnufræðingurinn Kevin Luhman lýsti könnun sem hann hafði gert á stjörnumælingum í innrauðu ljósi. Yfirgripsmestu mælingarnar á þessu sviði voru gerðar úr gervitunglinu WISE (Wide-field Infrared Survey Explorer) á árunum 2009-2011. Með þeim mælingum höfðu greinst um það bil hundrað brúnir dvergar, en það eru stjörnur sem eru of efnislitlar til að geta skinið sem sólir, þar eð hitinn í iðrum þeirra er of lítill til að kjarnorka leysist úr læðingi. Þar sem yfirborðshiti þessara stjarna er lágur skína þær fremur í innrauðu ljósi en sýnilegu. Brúnu dvergarnir reyndust mun færri en menn höfðu búist við, og er svo að sjá að einungis ein af hverjum sjö stjörnum í nágrenni sólar (og jarðar) sé þessarar gerðar. Luhman einbeitti sér að því að finna dverga sem sýndu tiltölulega hraða hreyfingu á himinhvolfinu og væru þess vegna líklegir til að vera nálægt sólkerfi okkar. Einn dvergurinn reyndist mjög nærri, aðeins 6,5 ljósár frá jörðu. Aðeins fjórar þekktar stjörnur eru nær en þetta: þrjár sem fylgja Alfa í Kentárnum (Mannfáki), og Barnardsstjarna í Naðurvalda. Þessi brúni dvergur gengur undir nafninu WISE 1049-5319, öðru nafni Luhman 16. Nánari athugun hefur leitt í ljós að dvergur þessi er tvístirni og er önnur stjarnan nokkru bjartari en hin. Bilið milli stjarnanna tveggja er rösklega þrisvar sinnum meira  en fjarlægðin milli jarðar og sólar, og umferðartími þeirra hvorrar um aðra er um 27 ár. Það bendir til þess að samanlagður massi (efnismagn) beggja hnatta sé 1/17 af efnismagni sólar.  Yfirborðshiti stjarnanna er um 1300° og birtustig beggja saman í innrauðu ljósi +15.

   Ári síðar (2014) tilkynnti Luhman að hann hefði fundið aðra brúna dvergstjörnu, litlu fjær en Luhman 16. Sú heitir WISE 0855-0714 og er í  stjörnumerkinu Vatnaskrímslið (Hydra), 7,3 ljósár frá jörðu. Þar er um að ræða stakan dverg, og yfirborðshiti hans er fyrir neðan frostmark. Birtustigið í innrauðu ljósi mælist +25. Massinn er óviss, en talinn vera á bilinu 3-10 sinnum massi Júpíters, þ.e. minna en 1/100 af massa sólar.
 

Þ.S. 2.5. 2022


Forsíða