Hlutfall birtu og myrkurs á jörðinni
Gufuhvolf jarðar hefur mikil áhrif
í þá átt að lengja dagsbirtuna, bæði
með ljósbroti og endurvarpi ljóss, sem koma í
veg fyrir að myrkur skelli á um leið og sólin sest.
Venja er að reikna myrkur frá þeim tíma þegar
sól er 6° undir sjóndeildarhring. Myndin á næstu
síðu sýnir meðalfjölda birtustunda á
sólarhring og heildarfjölda birtustunda á ári
á mismunandi breiddargráðum norðlægrar og suðlægrar
breiddar. Beinar formúlur gefa of ónákvæma niðurstöðu,
og því var valin sú leið að reikna birtutíma
hvers einstaks dags árið 1995 á hverri heilli breiddargráðu
og leggja saman. Athygli vekur að birtustundir á norðurhveli
eru nokkru fleiri en á suðurhveli miðað við sama
breiddarstig. Þetta stafar af misjöfnum brautarhraða jarðar
um sólu, sem veldur því að sólin dvelur
lengur yfir norðurhveli jarðar en yfir suðurhvelinu. Munurinn
er mestur við heimskautin og nemur þar tæplega 4%.
Á myndinni kemur fram, að
heildarbirtutíminn nær hámarki nálægt
69. breiddargráðu, skammt norðan við Ísland.
Meðallengd birtutímans er þar 15,1 stund á sólarhring.
Við 65. breiddargráðu, sem liggur þvert yfir Ísland,
er birtutíminn að meðaltali 14,9 stundir. Nálægt
miðbaug er hann skemmstur, aðeins 12,8 stundir. Þetta eru
ársmeðaltöl.
Ársmeðaltal birtutímans
hér á landi er mun hærra en birtutíminn á
jafndægrum, sem er um 13,9 stundir á sólarhring. Það
er því ekki reyndin, að birta tapist í skammdeginu
til jafns við það sem sem unnist hefur á björtum
sumarnóttum; vinningurinn er miklu meiri en tapið.
(Úr Almanaki Háskólans 1996)
|