Betlehemstjarnan
eftir Þorstein Sæmundsson

    Á undanförnum árum hefur birst fjöldi greina og jafnvel heilar bækur um Betlehemstjörnuna eftir vísinda- og fræðimenn, og ýmislegt nýtt hefur verið dregið fram í dagsljósið. Í sjálfu sér er það merkilegt að sagan um Betlehemsstjörnuna skuli teljast verðugt viðfangsefni vísindamanna því að hlutlaus lesandi hlýtur að viðurkenna að sagan ber allt yfirbragð trúarlegrar helgisagnar. Sagan um stjörnuna er úr Matteusarguðspjalli sem ritað var meira en 70 árum eftir Krists burð að því er fróðir menn telja og er því ekki samtímaheimild fremur en hin guðspjöllin. Sagan hefur tæplega verið á allra vitorði því að hennar er ekki getið í Lúkasarguðspjalli, sem þó fjallar um fæðingu Krists. Þá ber á það að líta að guðspjöllin voru ekki samin í sagnfræðilegum tilgangi heldur trúarlegum. Á þeim tíma sem þau voru rituð, og reyndar langt fram eftir öldum, var því trúað að fæðingu og andláti mikilmenna fylgdu stórmerki á himinhvolfinu. Þess vegna hefur ekki þurft mikið til að saga af þessu tagi fengi byr undir vængi.

    Þeir sem líta svo á að sagan um Betlehemstjörnuna sé einungis helgisögn sem enga stoð eigi í veruleikanum þurfa auðvitað ekki á stjörnufræðilegri skýringu að halda. Sama er að segja um þá sem lengst ganga í hina áttina og vilja leggja bókstaflegan trúnað á guðspjallið; þeir þurfa ekki heldur á skýringu að halda, að minnsta kosti ekki náttúrlegri skýringu. Lýsingin á því hvernig stjaman fór á undan vitringunum "þar til hún staðnæmdist þar yfir sem barnið var", eins og það er orðað, getur tæplega átt við nokkurt náttúrlegt fyrirbæri.

    Hugleiðingar um stjörnufræðilega skýringu fyrirbærisins eiga því aðeins erindi til þeirra sem vilja fara bil beggja, líta ekki á guðspjallið sem bókstaflegan sannleika, heldur frásögn sem feli í sér sannleiksþráð og sé einhvers konar stílfærð lýsing á raunverulegum atburði.

    Orðalag frásagnarinnar hefur verið grandskoðað af fræðimönnum, og er ekki úr vegi að rifja það upp hér. Frásögnin er í 2. kapítula Matteusarguðspjalls og hljóðar þannig í biblíuútgáfu frá 1914, lítið eitt stytt:

    "En er Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu, á dögum Heródesar konungs, sjá, þá komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: Hvar er hinn nýfæddi Gyðingakonungur? Því að vér höfum séð stjörnu hans austur frá og erum komnir, til þess að veita honum lotning. En er Heródes konungur heyrði þetta varð hann felmtsfullur og öll Jerúsalem með honum; og er hann hafði safnað saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum lýðsins, spurði hann þá, hvar Kristur ætti að fæðast. Og þeir svöruðu honum: í Betlehem í Júdeu. Því að þannig er ritað af spámanninum...... Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og fékk hjá þeim glögga grein á því hve lengi stjaman hefði sést; lét hann þá síðan fara til Betlehem.... Og sjá, stjarnan sem þeir höfðu séð austur frá, fór fyrir þeim þar til hún staðnæmdist þar yfir sem barnið var......"

    Nærri lætur að hvert orð í þessari frásögn hafi verið vegið og metið í von um að finna lykilinn að gátunni um þessa dularfullu stjörnu. Hverjir voru vitringarnir og hvaðan komu þeir? Fræðimenn virðast almennt sammála um að með vitringum sé átt við stjörnuspekinga og það orð er sums staðar notað í biblíuþýðingum. Þetta skiptir máli ef reynt er að átta sig á hvernig þessir menn hafi túlkað það sem þeir sáu. Þeir komu frá Austurlöndum, en hvaða lönd skyldu það hafa verið? Ástæða er til að spyrja um þetta ef við viljum reyna að ráða í það hve lengi stjarnan hafi sést, þ.e. hve langt ferðalag vitringanna hafi verið. Heitið Austurlönd virðist ekki hafa haft fasta merkingu í biblíunni en táknar líklega einhvern hluta þess svæðis sem nú heitir Írak og Íran. Vegalengdin sem um ræðir er þá a.m.k. 1000 km. Hér er um margra vikna ef ekki mánaða ferðalag að ræða, hvort sem valin er stysta og erfiðasta leiðin, beint yfir eyðimerkur, eða auðveldari leið og lengri sem krækir fyrir auðnina. Síðasti spölur leiðarinnar, frá Jerúsalem til Betlehem, er ekki nema átta kílómetrar og liggur til suð-suðvesturs. Hafi vitringarnir haft stjörnuna að leiðarljósi þennan síðasta spöl, mætti ætla að hún hefði verið í suðri eða suðvestri. Venjulegar stjömur á suðurhimni hreyfast frá austri til vesturs vegna snúnings jarðar, og þótt leiðin frá Jerúsalem til Betlehem sé ekki löng, myndi stefnan til stjörnunnar breytast talsvert frá upphafi til loka ferðarinnar. Ef stjarnan væri í suðri í upphafi ferðar og hátt á lofti, myndi hún að öllum líkindum verða í suðvestri eða jafnvel vest-suðvestri við ferðalok.

    Athygli vekur að Jerúsalembúum á að hafa verið algjörlega ókunnugt um fyrirbærið. Heródes kallar vitringana fyrir sig og spyr þá í þaula um stjörnuna, hvenær hún hafi sést o.s.frv. Þetta ber að hafa í huga þegar skýringa er leitað.

    Í biblíutextanum segir að vitringarnir hafi fyrst séð stjörnuna "austur frá". Lengi vel var deilt um hvort þetta táknaði að stjarnan hefði sést í austurátt eða vitringarnir hefðu séð hana meðan þeir voru í Austurlöndum. Við nánari athugun á gríska frumtextanum komust menn að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu átt sér stað í þýðingu og að orðalagið táknaði að stjarnan hefði sést koma upp, og þá á austurhimni eins og stjörnur gera yfirleitt. Í nýjustu útgáfu biblíunnar á íslensku hefur orðalagi verið breytt í samræmi við þetta á öðrum staðnum af tveimur, en í ensku útgáfunni hefur því verið breytt á báðum stöðum að því er best verður séð.

    Af frásögninni virðist einnig mega ráða að vitringarnir hafi ekki séð stjörnuna samfellt, heldur í tvö skipti með alllöngu millibili, fyrst áður en þeir lögðu upp í ferð sína og síðar er þeir voru lagðir af stað í síðasta áfanga ferðarinnar, frá Jerúsalem til Betlehem. Hugsanlega gæti því verið um tvö aðskilin fyrirbæri að ræða fremur en eitt sem sást í langan tíma.

    Mattheusarguðspjall er ekki eina heimildin um Bethlehemstjörnuna. Aðra lýsingu er að finna í svonefndu "apókrýfu" guðspjalli eða hulduguðspjalli sem kennt er við Jakob, en það rit mun vera frá 2. öld e. Kr. og er eitt af þeim ritum úr frumkristni sem kirkjan hefur ekki viljað viðurkenna sem hluta af Nýjatestamentinu. Þar segir svo frá þegar Heródes innir vitringana eftir tákninu sem þeir hafi séð: "Og vitringarnir sögðu: Við sáum stjörnu svo afar bjarta skína meðal stjarnanna, að þær dofnuðu og sáust ekki." Frásögnin er í fleiri atriðum frábrugðin Mattheusarguðspjalli; til dæmis er sagt að vitringarnir hafi fundið barnið og móður þess í helli en ekki í húsi. Þrátt fyrir það er hæpið að líta á hulduguðspjallið sem óháða heimild því að það er mun yngra en Mattheusarguðspjall.

    Í hinum gríska texta Mattheusarguðspjalls kemur orðið "aster" eða stjarna fyrir fjórum sinnum og alltaf í eintölu en ekki fleirtölu. Þetta hefur þó ekki hindrað menn í að setja fram þá kenningu að Betlehemstjarnan hafi verið óvenjuleg samstaða tveggja reikistjarna. Þessi skýring er studd þeim rökum að slík samstaða hefði verið mikilvæg í augum stjörnuspekinga, sem hefðu túlkað hana í samræmi við sitt fræðikerfi.

    Fleiri kenningar hafa verið settar fram til að skýra Betlehemsstjörnuna sem náttúrufyrirbæri. Hefur þá flest verið tínt til, líklegt sem ólíklegt. Ein tilgátan er sú að stjarnan hafi verið blossastjarna, öðru nafni nóva eða nýstirni. Önnur tilgátan er að halastjarna hafi sést á himni. Þá hefur verið stungið upp á vígahnöttum, þ.e. mjög björtum loftsteinum, og frekar tveimur en einum. Loks hefur þeirri hugmynd verið hreyft að vitringarnir hafi séð norðurljós, en um þá hugmynd þarf ekki að hafa mörg orð. Að vísu kemur það fyrir að norðurljós sjáist í suðlægum löndum, en sú sýn stendur ekki lengi og enginn gæti hugsanlega villst á henni og stjörnum himinsins.

    Hugmyndin um vígahnettina virðist líka fráleit. Flestir kannast við vígahnetti, annað hvort af eigin reynslu eða frásögn annarra. Þeir koma ekki upp í austri eins og sagt er að stjarnan hafi gert, og ekki verður séð hvernig einn vígahnöttur öðrum fremur hefði átt að vekja þá hugmynd að Messías væri væntanlegur. Vígahnettir líkjast ekki stjörnum að neinu leyti. Í fornöld voru þeir ekki taldir með himinhnöttum heldur var litið á þá sem loftfyrirbæri.

    Hið sama má segja um halastjörnu; hún líkist ekki venjulegum stjörnum og hefði auk þess vakið almenna athygli í Jerúsalem sem annars staðar, a.m.k. ef hún hefði verið björt. Halastjörnur eru algengari en margan grunar. Nú á dögum finnast þær flestar með sjónaukum, löngu áður en þær verða nægilega bjartar til að sjást með berum augum. Ef við viljum vita hve oft þær myndu sjást án sjónauka, er best að líta í skráðar heimildir fyrir daga sjónaukans. Á 16. öld eru skráðar um 50 halastjörnur og margar þeirra sáust í mánuð eða lengur. Það er því enginn skortur á halastjörnum. Meiri spurning er hvernig halastjarna hefði tengst fæðingu Krists í hugum manna, og er þá átt við vitringa eða stjörnuspekinga. Á þessum tímum voru halastjörnur taldar slæmur fyrirboði, sérstaklega hvað varðaði veðurfar, en einnig um aðra atburði. Þess munu engin dæmi að halastjarna hafi verið talin boða gleðitíðindi. Þetta virðist útiloka halastjörnur í þessu samhengi.

    Þá eru það nýstirni eða blossastjörnur sem birtast óvænt á himni. Þær allra björtustu geta verið bjartari en nokkur stjarna á himinhvolfinu, jafnvel bjartari en Venus. Þetta eru svokallaðar sprengistjörnur (súpernóvur). Þær eru mjög sjaldgæfar; sú síðasta sem var nógu björt til að vekja almenna athygli sást árið 1604. Venjulegar blossastjörnur eru mun algengari; á hverri öld sjást 10-20 sem verða nægilega bjartar til að sjást með berum augum, og um það bil fimm þeirra ná því að verða álíka bjartar og björtustu fastastjörnur. Þær dofna mishratt; á giska fimm á hverri öld sjást með berum augum í mánuð eða lengur. Ekki er hægt að útiloka að slík stjarna hefði dregið að sér athygli manna, en það hefði þá farið eftir afstöðu hennar til annarra stjarna og stjörnumerkja hvaða ályktanir stjörnuspekingar hefðu dregið af tilkomu hennar.

Ef við ætlum að leita að stjörnufræðilegum fyrirbærum til að skýra það sem vitringarnir sáu, þurfum við að vita á hvaða tíma á að leita. Og þá vandast málið því að sagnfræðingar hafa ekki getað ákvarðað fæðingarár Krists með neinni vissu. Allt sem varðar æviatriði Krists er þoku hulið í sagnfræðinni, og það svo mjög, að sumir hafa lýst efasemdum um að Kristur hafi verið til. Þetta er nefnt hér til að leggja áherslu á óvissuna sem ríkir um tímasetningar. Tímatal okkar, það er að segja áratalið sem miðast við Krists burð, er byggt á útreikningum munks og fræðimanns að nafni Díónysíus Exiguus sem uppi var í Róm á 6. öld. Ef þeir útreikningar væru réttir, væri Kristur fæddur í desember árið 1. f. Kr., en flestir munu sammála um að þarna skakki einhverju, jafnvel nokkrum árum. En hve mörgum, það er spurningin. Helsta viðmiðun sagnfræðinga er dauði Heródesar, en sagnaritarinn Josephus segir frá því að Heródes hafi dáið skömmu eftir tunglmyrkva, en fyrir páskahátíð Gyðinga. Lengi vel var álitið að umræddur tunglmyrkvi væri myrkvi sem átti sér stað árið 4. f. Kr., en á síðari árum hefur verið bent á tunglmyrkva árið 1 f. Kr. sem líklegri myrkva í þessu samhengi, og er sú skoðun studd veigamiklum rökum. Manntalið sem minnst er á í Lúkasarguðspjalli er sagt hafa farið fram þegar Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi, en þar fer eitthvað á milli mála. Að vísu er það rétt að Sulpicius Quirinius var landstjóri á Sýrlandi, og að manntal fór fram á þeim tíma, en þetta var á árunum 6-9 e. Kr. sem er langt utan hugsanlegra tímamarka. Vitað er um manntal sem hófst árið 8 f. Kr. og ætlað var til skattheimtu. Þetta var lengi vel talið vera það manntal sem Lúkas vitnar til. Á síðari árum hafa þó rök verið færð að því að frásögn Lúkasar eigi við skrásetningu sem fram fór á árunum 3 til 2 f. Kr., þegar öllum var gert að sverja Ágústusi keisara hollustueið. Það er því ekki fráleitt að telja Jesús fæddan á þeim tíma og myndi vera í samræmi við það sem sagnaritarar töldu á fyrstu öldum kristninnar.

    Óvissan í þessu efni er þó enn mjög mikil. Þessi óvissa endurspeglast í Almanaki Háskólans þar sem fæðingarárið er sagt vera á tímabilinu 7-2 f. Kr. Ef við ætlum að leita að stjörnufræðilegum fyrirbærum til að skýra Betlehemstjörnuna þurfum við að kanna a.m.k. allt þetta tímabil. Ekkert er vitað um það á hvaða árstíma Kristur fæddist þótt sagan um hirðana sem voru að gæta hjarðanna sé stundum notuð til að rökstyðja að þetta hafi ekki gerst að vetri til. Aðrar vísbendingar er ekki að finna.

    Lítum nú á hvað helst var að sjá á himinhvolfinu á þessum árum. Árið 7 f. Kr. varð óvenjuleg samstaða tveggja reikistjarna, Júpíters og Satúrnusar. Þessar reikistjörnur voru þá báðar í fiskamerki og mættust þrisvar á árinu: í maí, september og desember. Dr. David Hughes við háskólann í Sheffield hefur haldið því fram, að þessi samstaða gæti verið Betlehemstjarnan margumrædda. Hugmyndin er ekki ný af nálinni; hún hefur fundist í enskum annálum frá 13. öld. Á síðari tímum hefur hún oft verið eignuð hinum fræga stjörnufræðingi Kepler sem uppgötvaði samstöðuna með eigin útreikningum á 17. öld. En hugmynd Keplers var á annan veg og öllu flóknari. Er ekki úr vegi að rifja upp þá sögu.

    Kepler hafði orðið vitni að blossastjörnu (sprengistjörnu) sem sást í stjörnumerkinu Naðurvalda í október 1604 ár og var lengi bjartasta stjarnan á næturhimninum, bjartari en Júpíter sem þar var í grennd. En það var ekki einungis Júpíter sem þarna var nærri, heldur líka Mars og Satúrnus sem mynduðu áberandi þrenningu á himninum. Kepler taldi þetta ekki vera tilviljun og minntist þess jafnframt að árið áður höfðu Júpíter og Satúrnus verið í samstöðu . Hann áleit að þessi samstaða og sú þrenning reikistjarna sem á eftir fylgdi hefði kallað fram blossastjörnuna. Þessi hugmynd þætti fráleit nú á dögum, en á öndverðri 17. öld voru vísindin skemmra komin. Með útreikningum fann Kepler að svipuð staða himinhnatta hafði komið upp árin 7 og 6 f.Kr. Fyrst höfðu Júpíter og Satúrnus verið í samstöðu, ekki einu sinni heldur þrisvar eins og fyrr greinir. Síðan hafði Mars bæst í hópinn, alveg eins og árið 1604. Kepler gat þess til, að þessi fyrirbæri hefðu valdið blossa á himni og að sá blossi hefði verið Betlehemstjarnan.

    Hugmynd Keplers um blossastjörnuna féll í gleymsku, en menn tóku aftur að spá í það að samstöður Júpíters og Satúrnusar hefðu verið Betlehemstjarnan. Þessar þreföldu samstöður, sem svo eru nefndar, gerast að meðaltali á 180 ára fresti, en tíminn sem líður á milli þeirra er mjög breytilegur og getur verið frá 40 upp í 400 ár. Síðasti atburður af þessu tagi varð árið 1981.

    Hvers vegna hefði samstaða Júpíters og Satúrnusar átt að tákna fæðingu Gyðingakonungs? Á táknmáli stjörnuspekinnar tengdist Júpíter gjarna fæðingu konunga því að Júpíter var konungur guðanna, og svo var Satúrnus verndarstjarna Gyðinga samkvæmt fornri stjörnuspeki. Eitt af því sem Hughes leggur áherslu á er að stjörnurnar hafi mæst í fiskamerki sem stjörnuspekingar hafi tengt við Ísrael. Vitnar hann þar í rit frá 15. öld. En gagnrýnendur benda á að engar eldri heimildir finnist um þetta og að þetta sé mjög vafasamt. Vitað er að samstaðan var reiknuð út fyrirfram; það kemur fram á fornum leirtöflum, svo að ekki hefur hún komið stjörnufróðum mönnum á óvart. Og útreikningar sýna að þegar reikistjörnurnar mættust voru þær aldrei nær hvor annarri en sem svarar tveimur þvermálum tungls. Það lá því aldrei nærri að þær litu út sem ein stjarna. Kenningin er því ekki sérlega sannfærandi.

    Næsti atburður á himni á þessum árum virðist vera stjarna sem sást í steingeitarmerki í meira en tvo mánuði árið 5 f. Kr. Vitneskja um hana hefur fengist úr kínverskum ritum, en engar heimildir hafa fundist frá Evrópu eða Austurlöndum nær þótt stjarna þessi hafi að öllum líkindum verið björt og áberandi. Stjörnunni er lýst sem halastjörnu, en draga má í efa að halastjarna hefði haldist í sama stjörnumerki svo lengi. Því hafa sumir leitt getum að því að þetta hafi verið blossastjarna. Næsta ár, 4. f. Kr., sást þokukennd stjarna í stjörnumerkinu Erninum, halastjarna án hala eða hugsanlega blossastjarna. Sennilega hefur hún verið daufari en hin fyrri. Heimildirnar um síðari stjörnuna eru frá Kína og Kóreu. Af ástæðum sem fyrr er lýst er ólíklegt að bjartari stjarnan, sem skráð var sem halastjarna, hefði verið talin boða góð tíðindi. Um daufari stjörnuna er erfitt að fullyrða nokkuð, en engin stjörnuspekileg tengsl virðast vera milli stjörnumerkisins, sem stjarnan birtist í, og Ísraelsþjóðar.

    Þá komum við að síðasta himinfyrirbærinu sem fundist hefur á þessum tíma, samstöður reikistjarna árin 3 og 2 f. Kr. Í byrjun ágústmánaðar árið 3 f. Kr. fór Júpíter að sjást sem morgunstjarna í austri. Reikistjarnan Venus var þar fyrir á morgunhimninum að nálgast sól, og hún mætti Júpíter hinn 12. ágúst. Þegar reikistjörnurnar mættust var lítið bil á milli þeirra, um það bil hálft þvermál tungls.

Mánuði síðar fór Júpíter fram hjá björtustu stjörnunni í ljónsmerki, Regúlusi, sneri síðan við og fór aftur framhjá Regúlusi hinn 17. febrúar næsta ár, þ.e. árið 2. f. Kr. Enn sneri Júpíter við og fór framhjá Regúlusi í þriðja sinn 8. maí sama ár. Hinn 17. júní mættust svo Júpíter og Venus aftur í merki ljónsins, og þá á kvöldhimninum. Í þetta sinn fóru þær svo nærri hvor annarri á himninum að þær virtust snertast. Með öðrum orðum: tvær björtustu stjörnurnar á himinhvolfinu runnu þá saman í eitt fyrir auganu. Samstaðan hefur verið sýnileg frá Jerúsalem í góðri hæð á vesturhimni eftir að dimmt var orðið. Þetta er einstaklega sjaldgæfur atburður og hefur áreiðanlega vakið athygli stjörnufróðra manna. Þótt þeir hefðu getað séð samstöðuna fyrir, hefðu þeir ekki getað spáð því hve bilið milli stjarnanna yrði lítið. Það var reyndar ekki fyrr en árið 1987 að stjörnufræðingar réðu yfir nægilegum gögnum til að reikna bilið út með fyllstu nákvæmni svo langt aftur í tímann. Stjörnuspekingar fornaldar hefðu átt auðvelt með að tengja fyrrgreinda atburðaröð við Ísrael og komu Messíasar. Júpíter var æðstur guðanna og boðberi konunga eins og fyrr er sagt, og Venus var gyðja frjóseminnar. Þessar stjörnur mættust í ljónsmerkinu, en ljónið var merki ættkvíslar Júda. Þar við bættist að fastastjarnan Regúlus var oft kölluð konungsstjarnan; nafn hennar er dregið af latneska heitinu rex, þ.e. konungur. Það var dr. Ernest Martin við rannsóknarstofnun í biblíufræðum í Kaliforníu sem setti fram þessa kenningu árið 1978, en John Mosley við Griffith-himinsýningarsalinn í Kaliforníu hefur verið ötull við að kynna hana. Aðrir höfðu að vísu bent á samstöðu Júpíters og Venusar árið 2 f. Kr. sem hugsanlegan möguleika, en Martin vakti athygli á samstöðum Júpíters við fastastjörnuna Regúlus og tengdi tunglmyrkvann árið 1 f. Kr. við dauða Heródesar með sannfærandi rökum. (Sumt af þeim rökum hafði reyndar komið fram áður, í grein eftir W.E. Filmer í Journal of Theological Studies, okt. 1966 og bók eftir O. Edwards: A New Chronology of the Gospels, 1972.)

    Einhver spyr nú kannski hve oft það gerist að björtustu reikistjörnurnar tvær, Venus og Júpíter, gangi svo nærri hvor annarri að þær sýnist snertast á himninum. Þessu er erfitt að svara og kallar á langa og mikla útreikninga. Á 600 ára tímabili, þar sem farið er 4 aldir aftur í tímann og tvær fram í tímann, gerist þetta aðeins fjórum sinnum, og aðeins í eitt skiptið ætti fyrirbærið að sjást frá Jerúsalem, en það verður árið 2123. Skilyrðin til að sjá það verða þó alls ekki eins góð og við samstöðuna árið 2 f. Kr. því að reikistjörnurnar verða nær sól á himninum. Samstaðan sem sást frá Jerúsalem árið 2 f. Kr. var því nánast einstæður atburður sem gerist kannski einu sinni á þúsund árum eða svo.

    Eins og sagt var hér í upphafi, bendir flest til þess að sagan um Betlehemstjörnuna sé einungis falleg helgisaga. Vilji menn á hinn bóginn reyna að tengja hana við eitthvert náttúrufyrirbæri, virðist samstaða Júpíters og Venusar í ljónsmerki árið 2 f. Kr., að undangengnum fyrri samstöðum Júpíters við Venus og Regúlus, vera það sem helst kemur til greina. Þar höfum við atburð sem var vissulega mjög óvenjulegur og áberandi, en hefði þó ekki þurft að tákna stórtíðindi í augum annarra en stjörnuspakra manna. Hvað sem öðru líður verður ekki annað sagt en að áhugi manna á Betlehemstjörnunni og vangaveltur í því sambandi hafi reynst gagnlegar og aukið þekkingu manna á sögu og tímatali kristninnar.

(Textinn hér að ofan er að stofni til samhljóða erindi sem flutt var í safnaðarheimili dómkirkjunnar í Reykjavík hinn 9. janúar 1994.)

Þ.S. 26.12.2005

Almanak Háskólans