Forsíða Um árstíðir og sólargang eftir Þorstein Sæmundsson Erindi flutt í Myndlistaskólanum í Reykjavík í apríl 2018, með nokkrum viðbótum Líklega telja flestir sig vita það
sem máli skiptir um sólarganginn. Við höfum öll fylgst með því frá
blautu barnsbeini hvernig sólin hækkar á lofti á sumrin og dagarnir
lengjast, en styttast aftur á veturna þegar sól lækkar á
lofti. Sennilega muna flestir skýringuna á þessu, sem þeim var kennd í
barnaskóla, að möndull jarðar myndar ekki rétt horn við
jarðbrautarflötinn svo að heimskautin hallast til skiptis í átt að
sólu í árlegri göngu jarðar um sólina. Ef jarðmöndullinn myndaði
rétt horn við brautarflötinn yrðu engin árstíðaskipti. Þá yrði öðru
vísi um að litast hér á jörð, og myndu víst fæstir telja þá
breytingu til bóta. Myndin skýrir árstíðaskiptin. Þegar jörð er í stöðu A, þ.e. lengst til vinstri, hallast norðurskautið að sól. Þá er sumar á norðurhveli jarðar en vetur á suðurhvelinu. Þegar jörðin er í stöðu B, lengst til hægri, snýst þetta við. Þá er vetur á norðurhvelinu en sumar á suðurhveli. Í millistöðunum efst og neðst eru jafndægur. Þá skín sólin jafnt á bæði jarðhvelin. Enginn veit með vissu hvers vegna möndullinn
hallast eins og hann gerir. Sumir telja að það hafi gerst við
árekstur í árdaga og hafi hugsanlega tengst myndun tunglsins, en
aðrir telja að þyngdaráhrif frá sól og reikistjörnum hafi með
tímanum framkallað þennan halla. Möndulhalli reikistjarnanna er mjög
misjafn; Merkúríus, Venus og Júpíter sýna nánast engan halla, en
Úranus liggur á hliðinni eða því sem næst. Jafndægur á vori: 19.-21. mars Á síðustu öld, þ.e. á 20. öldinni, féllu vorjafndægur oftast á 21. mars, en nærri því eins oft á 20. mars. Frá síðustu aldamótum hafa vorjafndægur aðeins fallið tvisvar á 21. mars. Það var árin 2003 og 2007. Það sem eftir lifir öldinni mun vorjafndægur bera upp á 19. eða 20. mars, en aldrei þann 21. Það mun ekki gerast fyrr en árið 2102. En hvernig eru þá vorjafndægrin skilgreind? Orðið jafndægur (eða jafndægri) felur það í sér að dægrin tvö, dagur og nótt, séu jafnlöng. Samkvæmt almanakinu voru jafndægrin í ár 20. mars. Ef við látum sólarupprás og sólarlag ráða skiptingu dags og nætur og köllum það dag meðan sól er á lofti, kemur í ljós, að á þessu ári var minnstur munur á lengd dags og nætur ekki 20. mars heldur 18. mars. Þann dag var munurinn aðeins fjórar mínútur samkvæmt almanakinu, en á sjálfan jafndægradaginn, 20. mars, munaði hvorki meira né minna en hálftíma hér í Reykjavík, sem dagurinn var lengri en nóttin. Hvernig skyldi standa á þessu? Skýringin liggur í því að sólarupprás og sólarlag reiknast þegar efri rönd sólar er við hafsbrún, ekki sólarmiðjan. Þannig er það í öllum almanökum. Jafnframt hefur ljósbrot í andrúmsloftinu þau áhrif að sólin sýnist hærra á lofti en hún annars myndi gera og sést því fyrr en ella að morgni og sest seinna að kvöldi. Hvort tveggja verður til að lengja daginn lítillega, ljósbrotið þó hálfu meira en hitt.
Lítum nánar á þetta. Hugsum okkur
að við séum við sjávarmál og engin fjöll skyggi á sólarupprásina. Í
dag, 10. apríl, var sólarupprás Í Reykjavík samkvæmt almanakinu kl.
14 mínútur yfir 6. Þá var fyrst farið að sjást í efri rönd sólar, en
sólin var ekki öll komin upp fyrr en 17 mínútum síðar. Þegar okkur
sýnist sólin vera öll komin upp fyrir sjóndeildarhring má segja að
það sé sjónhverfing, því að ljósbrotið í andrúmsloftinu hefur lyft
henni upp sem svarar þvermálinu. Ef lofthvolf jarðar væri ekki
fyrir hendi, væri sólin enn undir sjóndeildarhring. Áhrif
ljósbrotsins eru því veruleg. Hve mikil þau reiknast í mínútum fer
eftir árstímum og hnattstöðu athugandans.
Nútímamenn sem hafa góðar klukkur geta farið nærri um það hvenær jafndægrin eru. En hvernig fóru menn að áður en klukkur komu til sögunnar? Til þess að svara þessu getum við spurt okkur sjálf sem hér erum stödd, hvernig myndum við fara að? Hér ætla ég að taka smávegis útúrkrók. Þegar landnámsmenn komu til Íslands höfðu þeir með sér það tímatal sem kallað er misseristalið. Þetta var í grunninn viknatal, þar sem 52 vikur voru í tveimur misserum. Augljóst er að slíkt tímatal hlaut að ganga á mis við árstíðaárið, því að þarna munar degi á hverjum fjórum árum. Við vitum ekki hvernig þetta var leiðrétt fyrir landnámstíð, en líklega hefur viku verið skotið inn við og við án fastrar reglu, líkt og Rómverjar leiðréttu sitt tímatal áður en Sesar kom skikkan á hlutina. Hitt vitum við, af frásögn Ara fróða í Íslendingabók, að Þorsteinn surtur Hallsteinsson gerði tillögu um lagfæringu á tímatalinu, sem fól í sér að viku var bætt við sumarmisserið á sjö ára fresti. Þetta segir okkur að Þorsteinn surtur hefur fundið einhverja aðferð til að mæla lengd ársins. Í ágætri grein, sem Trausti heitinn Einarsson prófessor og stjörnufræðingur ritaði í Skírni árið 1968, eru leiddar líkur að því að Þorsteinn hafi fylgst með sólsetrinu nálægt jafndægrum þaðan sem hann bjó á Þórsnesi við Breiðafjörð og hafði gott útsýni til vesturs. Um jafndægur breytist sólsetursstaðurinn ört frá degi til dags, og með því að setja á sig staðinn tiltekinn dag, og bíða þess að sólin setjist á sama stað næsta ár, má komast býsna nærri því að ákvarða lengd ársins. En hvað kemur þetta okkar
vandamáli við, að ákvarða jafndægrin. Jú, á jafndægrum kemur sólin
upp í háaustri og sest í hávestri. Ef við höfum fundið réttar áttir
(og það má gera á ýmsan hátt, með sólstaf eða stjörnuathugunum)
gætum við, í sporum Þorsteins surts, beðið þess að sól settist
nákvæmlega í vestri yfir Breiðafirðinum, og sagt: nú eru jafndægur. Að tímasetja sólstöður er ekki jafn auðvelt, því að á þeim tímum árs er færsla sólar til norðurs eða suðurs afar lítil frá degi til dags. Við yrðum því að taka mið af stöðu sólar alllöngu fyrir sólstöðurnar og bíða þess að staðan verði sú sama eftir sólstöður. Mitt á milli þessara tveggja dagsetninga hefðu þá sólstöðurnar verið. Eins og flestir vita fylgjum við á Íslandi fljótri klukku, sem kallað er, þannig að hádegi er ekki að meðaltali kl. 12 heldur síðar. Í Reykjavík er hádegið að meðaltali kl. 13 28. Hérlendis getur sú sérkennilega staða komið upp, að sólstöðurnar beri ekki upp á lengsta eða stysta dag ársins. Ef sumarsólstöður verða milli kl. 00 og 01:30, er það næsti dagur á undan sem er lengstur. Dæmi um þetta var árið 2004. Þá voru sólstöður 21. júní kl. 00:57, en sól var örlítið lengur á lofti þann 20. júní. Breytingin kringum sólstöðurnar er þó sáralítil. Þegar sól fer að hækka á lofti eftir vetrarsólstöður og daginn að lengja, er stundum sagt að munurinn nemi hænufeti á dag. Þessarar sérstöku merkingar orðsins hænufet er m.a. getið í Orðabók Menningarsjóðs. En hversu stórt skyldi þetta hænufet vera? Á liðnum árum hefur það komið fyrir, bæði í útvarpi og sjónvarpi, að menn hafa vitnað í almanakið og talið að hænufetið næmi einni mínútu, því að sólargangur í Reykjavík hefði lengst um mínútu fyrsta daginn eftir vetrarsólhvörf. Þarna gætir nokkurs misskilnings í túlkun á sólargangstöflum almanaksins. Tölurnar í töflunum eru gefnar upp á heila mínútu. Ef reiknuð niðurstaða er mjög nálægt því að standa á hálfri mínútu, þarf lítið til að breyta tölunni. Sekúndubrot gæti ráðið úrslitum um, hvort sólsetur teldist kl. 15 30 eða kl. 15 31 svo að dæmi sé tekið. Til þess að ganga úr skugga um hve
mikið sólargangurinn lengist fyrst eftir vetrarsólstöður, verður að
reikna með sekúndunákvæmni. Eins og vænta má er niðurstaðan háð breidd staðarins, en einnig er hún breytileg frá ári til árs
þótt á sama stað sé. Ef við tökum meðaltalið fyrir Reykjavík kemur í
ljós að fyrsta daginn eftir sólstöður lengist sólargangurinn að
meðaltali um 8
sekúndur. Annan daginn lengist hann um aðrar 25 sekúndur, og þriðja
daginn um 42 sekúndur. Þetta eru sem sagt "hænufetin" í Reykjavík. Á
Akureyri er fyrsta hænufetið 12 sekúndur, hið næsta 35 sekúndur og
hið þriðja 58 sekúndur. Eins og sjá má, fara tölurnar ört hækkandi,
en mismunatölur þeirra eru jafnar.
Orsök þess að sólarhringarnir eru mislangir er tvíþætt: sporbaugslögun
jarðbrautarinnar, sem veldur því að jörðin gengur mishratt á braut
sinni um sólina, og halli jarðmöndulsins, sem leiðir til þess að
sólin er ekki stöðugt yfir miðbaug jarðar heldur færist til norðurs
og suðurs eftir árstíðum. Sólarupprás verður seinna en við
mætti búast og sólsetur sömuleiðis, fyrst eftir að daginn fer að
lengja.
Athygli vekur að birtustundir á suðurhveli eru nokkru færri en á norðurhveli miðað við sömu breiddargráðu. Þetta stafar af misjöfnum brautarhraða jarðar um sólu. Sá mismunur veldur því að sól dvelur lengur yfir norðurhveli jarðar en yfir suðurhvelinu. Munurinn er mestur við heimskautin og nemur þar tæplega 4%. Ofangreindar birtustundir eru ársmeðaltöl. Ef við lítum á það hvernig birtutíminn breytist yfir árið hér á Íslandi, sýna útreikningar að á jafndægrum er birtutíminn aðeins 13,8 stundir á sólarhring, sem er langt undir ársmeðaltalinu. Það er því ekki rétt, sem sumir virðast halda, að við töpum birtu í skammdeginu til jafns við það sem sem unnist hefur á björtum sumarnóttum; vinningurinn er mun meiri en tapið. Venjulega líta
menn svo á að suðurhlið húsa sé sólarhliðin, að sólin skíni meira á
þá hlið en norðurhliðina. Yfirleitt er þetta rétt, en um hásumarið á
Íslandi bregst reglan, og norðurhliðin hefur vinninginn. Rétt
er að undirstrika, að þetta gildir aðeins um hásumarið. Yfir árið
skiptist sólskinið milli suðurhliðar og norðurhliðar hér á landi
þannig, að sól skín að meðaltali þrefalt lengur á suðurhliðina en
norðurhliðina.
|