Þann 18. mars 2016 var fylgst með
myrkvastjörnunni Algol í stjörnumerkinu Perseusi til að ákvarða
hvenær myrkvi hennar næði hámarki. Algol var mynduð frá
Markúsarþýfishól nærri Höfn í Hornafirði, með 30 cm spegilsjónauka og
SBIG STL11kM ljósflögumyndavél (CCD). Atburðarás Algolmyrkva er á þá leið
að birta stjörnunnar dofnar stöðugt uns miðju myrkvans er náð, en þá fer
birtan að vaxa á ný og nær í fyrra horf um níu klukkustundum eftir að
myrkvinn hófst. Markmiðið var að fylgjast með birtubreytingunni og
tímasetja miðju myrkvans.
Myndin sýnir hvar Algol er í stjörnumerkinu
Perseusi. Höfundur við tækjabúnaðinn sem var notaður við mælingarnar. Búnaðurinn er uppsettur í varanlegri aðstöðu. Sjónaukinn situr á miðbaugsstilltu stæði sem hvílir á steyptum stöpli til þess að fyrirbyggja titring. Hann er rafdrifinn og pólstilltur til þess að fylgja göngu stjarna yfir hvelfinguna á sem jafnastan hátt. Fyrir vikið haldast stjörnur kyrrar í sjónsviðinu meðan mælt er. Ljósflögumyndavélin er áfest hjástefnubeini og sjónaukanum. Myndin sýnir hvernig fartölva tengist ljósflögumyndavélinni. Algol og daufari stjörnur í nánd við hana. Myndin spannar sjónsvið mælitækisins sem er 29 x 20 bogamínútur að stærð. Notuð var 2x2 dílaknipping ("binning"). Mælingar og úrvinnsla Myrkvinn varð snemma kvölds og var raunar hafinn áður en sól var gengin undir. Það var enn bjart á vesturhimni þegar mælingar hófust. Þá voru tæpar tvær klukkustundir uns miðju myrkvans yrði náð samkvæmt spám. Strax og stjarnan greindist gegnum rökkurbirtuna var farið að velja heppilega tímalengd fyrir hverja myndatöku. Á endanum var valinn 8 sekúndna tökutími og stjarnan tekin úr skarpstillingu (fókus) til þess að yfirmetta ekki díla myndflögunnar. Við myndatökurnar var einnig notuð svonefnd V ljóssía sem hleypir í gegn ljósi á tíðnibili sem augað greinir sem grænt. Sían var notuð til að meta sýndarbirtustig stjörnunnar. Fyrsta mynd sem var notuð í úrvinnslu var tekin kl. 20:24 en sú síðasta kl. 23:45. Teknar voru 75 myndir á þessu tímabili meðan á myrkvanum stóð. Myndirnar voru svo undirbúnar fyrir úrvinnslu. Notaðar voru tvær viðmiðunarstjörnur til þess að ákvarða birtustyrk Algol meðan myrkvinn stóð yfir (sjá töflu). Ljósmælingaforrit reiknar birtustigið með samanburði við stjörnur með þekkta og stöðuga birtu. Niðurstöðurnar voru metnar með tveim forritum (Mira Pro og Peranso) og reiknitóli á vefsíðu tékkneska gagnabankans B.R.N.O. til þess að ákvarða miðtíma myrkvans. Bent skal á að myrkvinn var ekki mældur alveg frá byrjun til enda, og má vera að það hafi áhrif á niðurstöðurnar og að þeim geti skeikað örlítið. Tafla: Algol og þær viðmiðunarstjörnur sem voru notaðar.
Algol og viðmiðunarstjörnurnar SAO 38605 og
SAO 38614 (t.v.). Línurit mælinga 1. Mira Pro Í stjörnufræðiforritinu Mira Pro UE er hægt að ákvarða miðju myrkva með svonefndri Kwee - Van Woerden aðferð. Tímakvarðinn á myndinni er í júlíönskum dögum. 2. Peranso
3. B.R.N.O.
Mira Pro UE Kwee - Van Woerden lágmark: JD 2457466,40005 ± 0,00005 = 18.3.2016 kl. 21:36:04 Peranso Kwee - Van Woerden lágmark: JD 2457466,40040 ± 0,00003 = 18.3.2016 kl. 21:36:34 B.R.N.O. Aðferð Brát, Mikulášek og Pejcha: JD 2457466,40010 ± 0,00049 = 18.3. 2016 kl. 21:36:09 Heimildir B.R.N.O. 2016. Project - Eclipsing Binaries. Variable and Exoplanet Section of the Czech Astronomical Society. Vefslóð: http://var2.astro.cz/index.php Brát, L, Mikulášek,
Z & Pejcha, O. 2012. Minima Timing of Eclipsing Binaries.
Vefslóð: Kreiner, J.M., Kim C-H. og Nha, I-S., 2009. Atlas of O-C Diagrams of Eclipsing Binary Stars. Skoðað 18. mars 2016. Vefslóð: http://www.as.up.krakow.pl Kwee, K. K. & H. Van Woerden 1956: A method for computing accurately the epoch of minimum of an eclipsing variable. Bulletin of the Astronomical Institutes of the Netherlands, Vol. XII no. 464. Vefslóð: http://adsabs.harvard.edu/
|