Forsíða
 

Hvenær verða aldamót?

    Þegar leið að síðustu aldamótum var talsvert um það deilt, bæði hérlendis og erlendis, hvenær 20. öldinni lyki og hin 21. gengi í garð. Deila þessi var ekki ný af nálinni því að svipaðar umræður má rekja að minnsta kosti fjórar aldir aftur í tímann. Meðal sagnfræðinga og annarra sem fróðir eru um tímatal hefur þó aldrei verið neinn ágreiningur um svarið: öldinni lauk hinn 31. desember árið 2000.

    Tímatal kristinna manna á það sameiginlegt með öllum öðrum tímatölum mannkynssögunnar að fyrsta árið er auðkennt með tölunni 1, annað árið með tölunni 2 og svo framvegis. Ef fylgt er fornum latneskum rithætti heitir fyrsta árið Anno Domini Nostri Jesu Christi 1, sem þýða mætti "fyrsta ár herra vors Jesú Krists". Af því leiðir að fyrstu öldinni lauk ekki fyrr en árið 100 var á enda, og 20. öldinni lauk ekki fyrr en árið 2000 var á enda. Ný öld gekk því ekki í garð fyrr en 1. janúar árið 2001.

    Í inngangi að Almanaki Háskólans árið 1900 getur að líta eftirfarandi setningu: "Árið 1900 er hið síðasta ár hinnar 19. aldar, sem endar 31. December árið 1900". Hliðstæð setning hafði þá staðið í almanakinu í þrjú ár, og segir það sína sögu um það hve snemma deilan hafi risið í það skiptið. En skemmst er frá því að segja að Íslendingar héldu aldamótin hátíðleg með ýmsum hætti í lok ársins 1900 og í ársbyrjun 1901, og hið sama gerðu flestar aðrar þjóðir hins kristna heims. Þjóðverjar voru þar undantekning því að Vilhjálmur keisari II hafði sína skoðun á málinu og fyrirskipaði að haldið skyldi upp á aldamótin í ársbyrjun 1900.

    Í tímatali okkar er ekkert ár táknað með núlli (0). Næsta ár á undan árinu 1 er kallað 1 f.Kr. Hugtakið núll og tákn fyrir það var ekki til þegar tímatalið var fundið upp á 6. öld. Þá tíðkaðist ekki heldur að telja árin lengra aftur í tímann en að upphafi hvers tímatals, og það var ekki fyrr en á 16. öld að menn fóru að tákna ártöl kristins tímatals með þeim hætti að telja 1 f.Kr, 2 f.Kr. og svo framvegis.

    Við ýmiss konar tímatalsreikninga getur verið hentugt að tákna árið 1 f.Kr. með "0", árið 2 f.Kr. með "-1" (mínus eitt) o.s.frv. Þetta hafa stjörnufræðingar gert frá því á 18. öld. Það merkir þó ekki að stjörnufræðingar hafni hinu hefðbundna tímatali sagnfræðinnar; þetta er einungis aðferð til að auðvelda vissa útreikninga.

    Í umræðum um aldamótin höfða menn einatt til þess hvernig aldur manns sé talinn í árum. Við segjum að barn sé eins árs þegar ár er liðið frá fæðingu þess og að einhver sé hundrað ára þegar hundrað ár eru liðin frá fæðingu hans. Þegar árið 2000 gengur í garð finnst mörgum að það hljóti að merkja að 2000 ár séu liðin frá fæðingu Krists. Þar beri því að setja aldamót og árþúsundamót. En eins og fram kemur hér að ofan er þetta misskilningur. Talan 2000 merkir einungis númer ársins í röð þar sem fyrsta árið er númer 1. Í þessu sambandi er rétt að minna á, að til er annað orðalag þegar aldur manns er talinn. Við segjum að barn sé á fyrsta ári þar til það er eins árs, síðan á öðru ári o.s.frv. Talning ára í tímatalinu á meira skylt við þessa málvenju en þá sem fyrr var nefnd.

    Lítum nú nánar á sögu kristilegs tímatals. Fyrir tæpum 1500 árum fól páfinn í Róm munki og fræðimanni að nafni Díónysíus Exiguus að framlengja gamlar töflur yfir páska. Töflurnar miðuðust við tímatal Díókletíanusar keisara og voru árin talin frá embættistöku hans. Díónysíusi fannst óhæfa að miða áratal við keisara sem svo mjög hafði ofsótt kristna menn og ákvað í staðinn að "telja og sýna árin frá holdgun herra vors Jesú Krists" eins og hann orðaði það í bréfi. Taflan skyldi ná yfir 95 ár (fimm 19 ára tunglaldir) frá og með árinu 248 eftir tímatali Díókletíanusar, en Díónysíus breytti ártölunum og nefndi fyrsta árið Anno Domini Nostri Jesu Christi 532. Hvernig Díónysíus fann mismun ártalanna, þ.e. fæðingarár Krists, er ekki vitað þótt um það séu ýmsar kenningar og oftar en ekki séu þær settar fram sem staðreyndir væru. Hér skal lýst tilgátu sem rakin er í bók norska stjörnufræðingsins J.Fr. Schroeters, Haandbog i Kronologi (Osló, 1926). Tilgátan er sprottin af því, að samkvæmt reglum kirkjunnar um páskareikning hefði páskadag árið 31 e.Kr. átt að bera upp á boðunardag Maríu, 25. mars. Setjum svo, að þetta sé ekki tilviljun heldur hafi Díónysíus valið upphafsárið þannig að þessi niðurstaða fengist, eftir að hafa ákvarðað ártalið nokkurn veginn með hliðsjón af öðrum heimildum. Meðal kirkjunnar manna var það útbreidd skoðun að upprisa Krists hefði átt sér stað 25. mars, sama dag og hann var getinn. Upprisan var á páskadegi og Kristur átti að hafa verið þrítugur (þ.e. á 31. ári) þegar hann var krossfestur. Þannig gengur dæmið upp, en aðferðin er auðvitað fjarri því að vera traustvekjandi, sagnfræðilega séð.

    Hafi Díónysíus notað þessa aðferð, má draga þá ályktun að hann hafi talið Krist fæddan 25. desember árið 1 f.Kr. eins og það myndi nú orðað, og flestir fræðimenn hallast reyndar að þeirri skoðun. En þetta er þó alls ekki víst.  Ef Díónysíus miðaði holdgunina (incarnatio) við boðunardaginn 25. mars fremur en fæðingardaginn 25. desember, eins og margir álíta, er hugsanlegt að hvort tveggja hafi átt að gerast á "fyrsta ári herrans" sem við myndum kalla 1 e.Kr. Engilsaxneski fræðimaðurinn Beda, sem uppi var á  8. öld, taldi einsýnt að Díónysíus hefði miðað við það ár, og kirkjunnar menn á Íslandi fyrr á öldum virðast hafa treyst Beda í þessu efni, því að þeir töldu Krist fæddan á sunnudegi, og það kemur heim við 25. desember árið 1 e.Kr.  Ef Kristur hefði fæðst þann dag þyrftum við hins vegar að bíða fram í desember árið 2001 til þess að tvö þúsund ár væru liðin frá fæðingu hans. En þetta eru tómar vangaveltur því að við höfum engar heimildir um það hvaða dag Díónysíus taldi Krist fæddan, hvorki miðað við hans eigið eða eldra tímatal. Það flækir málið enn frekar að við vitum ekki með vissu hvaða dag Díónysíus taldi fyrstan í árinu í tímatali sínu. Á dögum Díónysíusar var 1. janúar almennt talinn nýársdagur í Róm, og því er líklegast að hann hafi miðað við þann dag eins og við gerum nú. Ekki er þó loku fyrir það skotið að hann hafi haft aðra dagsetningu í huga, t.d. 25. mars eða 25. desember eins og algengt var síðar í kristninni. Í tímatali því sem kennt er við Díókletíanus keisara var nýársdagur hins vegar 29. ágúst.

    Díónysíus var hinn ágætasti fræðimaður og vann merk fræðastörf í kirkjunnar þágu. Viðurnefni hans, Exiguus, merkir "hinn litli", og telja sumir að hann hafi valið það sjálfur af hógværð fremur en að það vísi til líkamsstærðar. Ekki finnast þess dæmi að Díónysíus hafi notað tímatal sitt í eigin bréfaskriftum, heldur dagsetti hann bréf sín eftir áratali í skattöld (Indictio) eins og þá var algengt. Páskatafla Díónysíusar með hinu nýja tímatali var samin árið 525 eða þar um bil, en tímatalið náði ekki almennri útbreiðslu í kristnum löndum fyrr en á 10. öld.

    Í deilum um aldamótin hafa mörg atriði verið dregin fram sem eru áhugaverð í sjálfu sér, þótt þau eigi lítið erindi í þá umræðu. Þar á meðal er spurningin um raunverulegan fæðingardag Krists. Menn hafa lengi vitað að Díónysíus valdi tímatalinu rangt upphafsár svo að skakkar a.m.k. tveimur árum. Sú skekkja skiptir hins vegar engu máli við mat á því hvenær aldamót verða, þegar búið er að festa tímatalið á annað borð. Sömuleiðis breytir það engu þótt ársbyrjun hafi stundum miðast við aðra dagsetningu en nú tíðkast. Þegar breytt er um nýársdag hefur það áhrif á lengd einstakra ára, en tölu áranna breytir það ekki. Almanaksárið hefur hvort sem er ekki fasta lengd; hlaupárin eru degi lengri en almenn ár. Þegar gregoríanska tímatalið (nýi stíll) tók við af júlíanska tímatalinu (gamla stíl) á Íslandi árið 1700 var nóvembermánuður styttur um 11 daga. Það almanaksár varð því styttra en önnur ár í íslenskri sögu.

(Úr Almanaki Háskólans 2000 með nokkrum breytingum og viðbótum)

Þ.S. nóv.1999
Síðast breytt í des. 2001