Falleg samstaða á morgunhimni

Að morgni 5. nóvember 2004 voru tvær björtustu reikistjörnurnar, Venus og Júpíter, mjög nálægt hvor annarri á morgunhimninum. Bilið á milli þeirra var  litlu meira en þvermál tungls. Þessa er getið í almanakinu á bls. 47, en þar stendur að Venus verði 0,6° norðan við Júpíter 4. nóvember. Þar sem þetta gerðist að kvöldi hins 4. og Venus var morgunstjarna, sást samstaðan best að morgni hins 5. nóv. Ætla má að margir hafi séð þessa fallegu samstöðu hér á landi því að veður var víða hagstætt. Meðfylgjandi mynd tók Snævarr Guðmundsson í Hafnarfirði klukkan 09:30 um morguninn. Þá var farið að birta og skýjaslæða á himni. Bjartari stjarnan er Venus.
 

Fjórum dögum síðar hafði bilið breikkað talsvert, aðallega vegna hreyfingar Venusar. En þá hafði tunglið slegist í hópinn eins og sjá má á myndinni hér að neðan sem Snævarr tók.
 

Í stjörnusjónauka mátti glöggt sjá hvernig Venus var upplýst af sól líkt og þverrandi tungl (sjá þriðju mynd Snævars hér fyrir neðan). Sá er þó munurinn að Venus er þarna vaxandi, því að kvartilaskipti Venusar ganga öfugt við kvartilaskipti tungls; skuggaskilin hreyfast frá austri til vesturs.
 

Almanak Háskólans

Þ.S. 14.11. 2004