Forsíða

Hver var Ulugh Beg?
 

Ulugh Beg fæddist í borginni Soltaniyeh í Persíu (Íran) árið 1393. Þegar hann var sextán ára gerði faðir hans hann að héraðsstjóra í Samarkand, borg sem nú telst til Úsbekistan. Faðirinn, Shah Rukh, hafði erft stórveldi sem afinn, Timur (Tamerlane), hafði brotið undir sig og náði allt frá Ankara í Sýrlandi til Dehli á Indlandi. Ulugh hafði takmarkaðan áhuga á hermennsku eða stjórnsýslu. Hann einbeitti sér að vísindum og listum, sérstaklega stærðfræði og stjörnufræði og var án efa merkasti stjörnufræðingur 15. aldar. Í Samarkand lét hann reisa sívalningslaga stjörnuhús, 35 metra hátt, sem hýsti stærsta stjarnmælifjórðung (astronomical quadrant) sem sögur fara af, með 40 metra vídd frá miðju að rönd. Hluti fjórðungsins var grafinn í jörð. Á honum voru aflestrarmerki þar sem 1 mm svaraði til 5 bogasekúndna. Með þessu tæki mældi Ulugh Beg möndulhalla jarðar og lengd ársins með áður óþekktri nákvæmni:

Möndulhallinn samkvæmt Ulugh Beg: 23° 30’ 17” (rétt gildi á þessum tíma var 23° 30’ 48”).

Lengd ársins samkvæmt Ulugh Beg: 365d 5t, 49m 15s  (rétt gildi var 365d 5t 48m 44s).

Auk þessa mældi Ulugh Beg framsókn vorpunktsins, þ.e. hreyfingu vorpunktsins til vesturs miðað við fastastjörnur. Vorpunkturinn er sá staður á himinhvelfingunni þar sem sólin er stödd við vorjafndægur. Ulugh Beg reiknaðist svo til að hreyfingin næmi 51,4 bogasekúndum á ári. Rétt meðalgildi á þessum tíma var 50,1".

Athuga ber, að þetta var nærri tveim öldum áður en sjónaukinn var fundinn upp. Að sjálfsögðu hafði Ulugh marga sér til aðstoðar. Hann hafði fengið eina sextíu vísindamenn til samstarfs í vísindasetri í Samarkand. Einn þeirra, að nafni al-Kashi, mun hafa verið sérlega virkur við stjörnuathuganir og stærðfræðileg verkefni.

Árið 1437 birti Ulugh skrá um himinstöðu 992 stjarna. Sú skrá var að nokkru leyti byggð á hans eigin athugunum og var ein sú besta sem fram hafði komið frá því að grísk-egypski stjörnufræðingurinn Ptólemeus gerði slíka skrá á 2. öld e.Kr.

Þá samdi Ulugh töflur yfir hornaföll, nánar tiltekið sínus og tangens horna með 1° millibili. Þessa töflur eru ótrúlega nákvæmar, svo að treysta má 8 aukastöfum. Þær grundvallast á útreikningi sem Ulugh gerði á gildinu af sínus 1°. Hann fékk gildið:

sin 1° = 0.017452406437283571

Rétt gildi er:

sin 1° = 0.017452406437283512820...

Þegar faðir Ulughs dó árið 1447 missti hann yfirráðin í Samarkand, og árið 1449 var hann var ráðinn af dögum að undirlagi elsta sonar síns.

Ulugh átti þrettán eiginkonur. Þá fyrstu eignaðist hann þegar hann var tíu ára. Nöfn allra kvennanna og ætterni eru þekkt. Sagt er að Ulugh hafi kunnað mörg tungumál: arabísku, persnesku, tyrknesku, mongólsku og hrafl í kínversku.

Rústir stjörnustöðvarinnar í Samarkand voru týndar um aldir en þær fundust árið 1908 og voru grafnar upp árið 1948. Þar er nú safn til sýnis ferðamönnum.

Stytta af Ulugh Beg við safnið í Samarkand

Þ.S. 10.5. 2021