Áhugaverðar myndir af stjörnunni 61 Cygni Árið 2003 birtist frétt um það á þessu vefsetri að Snævarr Guðmundsson, þáverandi formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, hefði tekið myndir af tvístirninu 61 Cygni (stjörnu 61 í stjörnumerkinu Svaninum) og fylgst með hreyfingu þessa tvístirnis miðað við fjarlægari stjörnur um árabil. Sjá hér: http://www.almanak.hi.is/61cygni.html. Á myndunum mátti einnig greina hreyfingu stjarnanna hvorrar um aðra, en umferðartími
þeirra er tæp 700 ár. Nú hefur Snævarr tekið nýja mynd af 61 Cygni og
skeytt henni saman við fyrri myndir sínar og eldri myndir frá Lowell
stjörnustöðinni í Bandaríkjunum. Aðalmyndin sýnir hvernig 61 Cygni hefur færst á himni miðað við stjörnur í bakgrunni. Færslan á þessum 96 árum nemur um 8 bogamínútum eða 1/7 úr gráðu. Það svarar til hraðans 88 km á sekúndu þvert á sjónlínu. Jafnframt sést greinilega hvernig stjörnurnar hafa snúist um sameiginlega þyngdarmiðju á þessum tíma. Til hægri eru sýndar myndirnar sem skeyttar voru saman. Myndirnar frá
Lowell stjörnustöðinni náðu ekki yfir eins mikið sjónsvið og myndir Snævars, og
koma þær fram sem gráleitir ferningar. Á dekkri grunni eru svo myndirnar eftir
að þeim hafði verið snúið og stærðinni breytt þannig að stjörnur í bakgrunni
féllu saman við stjörnurnar í myndum Snævars. 61 Cygni sést því á tveimur stöðum
í hverjum ramma. |