Loftsteinninn í Súdan og bankahrunið  

    Hinn 7. október á síðasta ári  féll loftsteinn í Núbíueyðimörkinni í Súdan. Þetta var kl. 05:45 að staðartíma. Á "Stjörnufræðivefnum" (www.stjörnuskodun.is) hefur þrívegis verið fjallað um þennan loftstein: 6. október, 7. október og 5. apríl:
http://www.stjornuskodun.is/eldri-frettir/360-smastirni-a-leie-inn-i-lofthjupinn-i-nott-7-oktober
http://www.stjornuskodun.is/frettir/361-loftsteinn-fell-til-jardar-i-afriku
http://www.stjornuskodun.is/frettir/435-loftsteinafundur-i-sudan

    Við þessa ágætu umfjöllun má bæta nokkrum orðum. Eins og réttilega kemur þar fram, er þetta eina dæmið um loftstein sem hefur sést áður en hann rakst á jörðina. Finnandinn var bandaríski stjörnufræðingurinn Richard Kowalski sem hefur sérhæft sig í leit að reikisteinum sem koma nærri jörðu. Kowalski var við rannsóknir með sjónauka 1,5 m í þvermál á Lemmonfjalli í Arizona. Steinninn, sem fékk nafnið 2008 TC3, fannst tæpum sólarhring áður en hann féll til jarðar, en á þeim tíma tókst stjörnufræðingum og áhugamönnum að ljósmynda hann mörg hundruð sinnum og reikna braut hans með mikilli nákvæmni. Áætlað þvermál steinsins var 2-5 metrar. Svæðið þar sem steinninn féll er svo afskekkt að fáir munu hafa séð blossann þar í grennd, en  bjartur hefur hann verið því að hann sást úr flugvél í 1400 km fjarlægð og það mátti greina hann sem lítinn ljósdepil á mynd evrópska veðurtunglsins Meteosat. Mynd náðist af slóðinni eftir loftsteininn sem lýst var upp af sól, en sú mynd var tekin  morguninn eftir með farsímamyndavél (sjá neðar). Við leit fundust nokkur kíló af brotum úr steininum í eyðimörkinni og reyndust þau vera af sjaldgæfri tegund (úreílít). Steinninn kom úr vestri undir 19° horni á tiltölulega litlum hraða (13 km/s). Samkvæmt upplýsingum úr ónafngreindum bandarískum hertunglum sprakk hann í 37 km hæð. Sprengiorkan samsvaraði líklega 1-2 kílótonnum af TNT ef dæma má af lágtíðnihljóðbylgjum sem fram komu á mælum í nágrannaríkinu Kenía.  Í tímariti breska áhugamannafélagsins British Astronomical Association í október 2009 segir að fjölmiðlar hafi ekki veitt þessum merka atburði verðskuldaða athygli þar sem þeir hafi verið svo uppteknir af hruni íslensku bankanna!

    Eftirfarandi myndir af slóðinni eftir loftsteininn (ummyndaðri af háloftavindum) og broti úr steininum eru fengnar af vefsíðu bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Steinvalan á neðri myndinni er um  4 cm í þvermál. 

 

    Myndatextana á ensku má lesa hér:

http://apod.nasa.gov/apod/ap081108.html

http://antwrp.gsfc.nasa.gov/apod/ap090328.html

 

.Þ.S. 10. október 2009.

 

Almanak Háskólans